Strandaglópar komist leiðar sinnar í fyrramálið

Mikið hefur verið að gera í söluskrifstofu Icelandair á Keflavíkurflugvelli …
Mikið hefur verið að gera í söluskrifstofu Icelandair á Keflavíkurflugvelli í dag. Ljósmynd/Víkurfréttir

Von er á því að allir strandaglópar dagsins í dag komist í áttina til áfangastaðar í fyrramálið. Þetta segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is. Að hans sögn hefur fólkinu fækkað töluvert í flugstöðinni frá því í dag.

Guðjón segir vinnu dagsins hafa meðal annars gengið út á það að reyna að koma þeim farþegum sem áttu að millilenda á Íslandi yfir á önnur flugfélög. Er það gert til þess að losa um pláss fyrir þá farþega sem eru að fara annaðhvort til Íslands eða Íslendinga á leið utan.

„Við eigum von á því að þótt það verði ekki flogin full áætlun í fyrramálið, til dæmis til Evrópu, þá getum við komið öllum farþegunum frá því í dag yfir á þau flug,“ segir Guðjón.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. mbl.is/Styrmir Kári

Þá hafi starfsfólk Icelandair einnig unnið að því að aðstoða strandaglópa með gistingu og fæði í dag. „Vandinn er auðvitað sá að hver og einn farþegi þarf sína lausn. Það er ekki hægt að finna heildarlausn yfir allan hópinn.

Þetta eru erfiðar tarnir en gerist sem betur fer ekki oft,“ segir Guðjón að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert