Var sagt að redda sér sjálf

Hópurinn er lúinn en reynir að halda í brosið eftir …
Hópurinn er lúinn en reynir að halda í brosið eftir fremsta megni. Frá vinstri: Inga, Bragi, Vignir, Kjartan, Móey, Sólrún. Ljósmynd/Aðsend

Hljómsveitin amiina og fjölskyldumeðlimir þeirra eru á meðal farþega Icelandair sem fundið hafa fyrir verkfallsaðgerðum flugvirkja en flugi sveitarinnar frá München í dag var aflýst.

María Huld Markan Sigfúsdóttir, meðlimur hljómsveitarinnar, ræddi við mbl.is. Sagði hún Icelandair hafa fullvissað sveitina um að ekki myndi gerast þörf á því að taka flug fyrr þegar meðlimir hennar spurðust fyrir um málið fyrir um viku.

Hópurinn, sem telur m.a. tvö börn, fór þó snemma á völlinn og í gegnum innritun án vandkvæða en þegar á hólminn var komið mættu þeim kaldar kveðjur.

„Okkur var bara sagt að við þyrftum að redda okkur sjálf.“

„Þetta kemur okkur ekki við“

En hvernig átti hópurinn að gera það? Þau reyndu að hringja í Icelandair en símkerfið var hrunið og þegar einhver loksins náði inn var viðkomandi númer 84 í röðinni. Flugfélagið svaraði heldur ekki skilaboðum þeirra í gegnum samfélagsmiðla, innritunarborðinu var lokað og það er engin skrifstofa frá Icelandair á vellinum.

„Meðal annars var hérna kasólétt kona sem leit út fyrir að vera komin einhverja sjö-átta mánuði á leið og var að reyna að komast heim til sín til Íslands,“ sagði María. Maki konunnar var í öngum sínum og sagði við starfsfólk flugvallarins að það væri ekki að fara að skilja þau eftir.

„En starfsfólkið á deskinu sagði bara hreinlega: Þetta kemur okkur ekki við, þið þurfið að hafa samband við flugfélagið – og bara lokaði!“

amiina á betri stundu. María huld er fremst til hægri.
amiina á betri stundu. María huld er fremst til hægri. Ernir Eyjólfsson

María sagði hópinn hafa trúað því að jafnvel þó svo að til verkfalls kæmi væri hægt að treysta á að fá haldgóðar upplýsingar frá Icelandair um hvert þau skyldu snúa sér og hvernig. Það hafi hinsvegar ekki verið raunin. Þá hafi margir erlendir farþegar á vellinum komið af fjöllum. Sumir tali litla ensku og eigi því erfitt með að finna aðrar lausnir.

„Við vorum mjög hissa á því að það hefði ekki verið búið að gera einhverjar ráðstafanir,“ sagði María.

„Starfsfólkið á flugvellinum missti andlitið. Það sagðist aldrei hafa heyrt um neitt svona, að fólk sem lendir í að fluginu þess sé aflýst þurfi að redda sér án allra upplýsinga.“

Aftur á núllpunkt

María og félagar ákváðu að fara þá leið að bóka lággjaldaflug til Dublin og hótel þar í nótt. Þaðan ætluðu þau að fljúga heim með WOW Air. Um talsverðan kostnað er að ræða en auk hefðbundnari fjárútláta þarf sveitin einnig að borga sérstaklega fyrir að ferja ýmsan búnað sem starfi hennar fylgir.

„Við gátum straujað hálfa milljón á kortin okkar fyrir þennan stóra hóp og hótel – ekki bara eitt kort heldur þurftum við að safna saman þeim kortum sem voru með heimild,“ sagði María „En það eru ekki allir í þeirri aðstöðu.“

Eftir að símtali Maríu og blaðamanns mbl.is lauk kom hins vegar í ljós að bókunin í flugið fór ekki í gegn. Þarf því að afbóka hótel í Dublin og byrja allt heila ferlið upp á nýtt.

„Við reynum að slá þessu upp í kæruleysi og slappa af við að finna nýtt flug,“ skrifaði María til blaðamanns. „Erum aftur á núllpunkti. Finnum ekki flug sem kemur okkur heim á morgun. Náum ekki í gegn hjá Icelandair. Vei!!“

Uppfært 16:16

Orðið er ljóst að hópurinn situr fastur í München fram á þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert