Ekki bjartsýnn að verkfallið leysist í bráð

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir ekki missa sjónar á …
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir ekki missa sjónar á því að samningar þurfi að nást. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Miðað við það hvernig verkfall flugvirkja Icelandair hefur þróast er Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, ekki bjartsýnn á að það leysist í bráð. Þetta segir hann í samtali við mbl.is. Verkfall flugvirkjar hófst klukkan sex í gærmorgun og hefur þegar haft áhrif á þúsundir farþega.

Í gær var 12 áætlunarferðum félagsins aflýst og það sem af er degi er búið að aflýsa sjö áætlunarflugferðum til og frá Evrópu og 11 til og frá Bandaríkjunum og Kanada að því er fram kemur á vef Icelandair.

Spurður út í þá gagnrýni sumra farþega að Icelandair hafi ekki verið nógu vel undirbúið fyrir verkfallið segist Björgólfur ekki telja það vera rétt.

„Þegar verkfall er fram undan reikna menn fram á síðustu stundu með að það verði samið. Það er hins vegar ljóst að þegar það eru 10.000 farþegar í kerfinu er alltaf spurning hvort menn séu nógu vel undirbúnir. Ég held að okkar fólk hafi verið að leysa úr öllum þeim málum sem upp hafa komið hjá farþegum,“ segir hann. Ekki sé hins vegar hægt að afgreiða alla í einu og því ekki óeðlilegt að farþegar séu ósáttir við það.

Mikill mannfjöldi hefur verið á Keflavíkurflugvelli í dag og í …
Mikill mannfjöldi hefur verið á Keflavíkurflugvelli í dag og í gær, en seinkanir hafa verið á flugi auk þess sem flugferðum hefur verið aflýst vegna verkfalls flugvirkja Icelandair. mbl.is/​Hari

Ljóst er að verkfallið hefur gífurlegan kostnað í för með sér fyrir Icelandair, bæði vegna þeirra flugferða sam búið er að aflýsa, sem og breytinga og afpantana á bókunum. Björgólfur segir ekki gefið upp á þessum tímapunkti hve mikill skaðinn sé, né heldur hvaða áhrif þetta hafi á rekstur félagsins. Upplýsingarnar verði þó gerðar opinberar síðar. „Við erum skráð félag og þurfum að senda frá okkur tilkynningar áður en við förum að tjá okkur í fjölmiðlum um það,“ segir hann.

Verð hluta­bréfa í Icelanda­ir lækkaði um rétt tæp 4% þegar opnað var fyr­ir viðskipti í Kaup­höll­inni í dag.

„Þurfum að ná einhverri lendingu“

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að verkfallið leysist á næstunni segir Björgólfur svo ekki vera. „Ég vissulega get ekki verið það. Miðað við hvernig mál hafa þróast getur maður ekki verið það á þessu stigi. Það fer hins vegar ekkert frá okkur að við þurfum á allan hátt að ná einhverri lendingu.“ Sú lending sé hins vegar ekki í sjónmáli í augnablikinu.

„Maður var vongóður með nóttina en því miður gekk það ekki eftir,“ segir Björgólfur og kveður málið á allan hátt snúið án þess að hann tjái sig frekar um kröfur flugvirkja eða samningaviðræðurnar.

Ekki er búið að boða aftur til fundar í deilunni að sögn Björgólfs. „Menn eru rétt að vakna eftir hamagang næturinnar, þannig að næsta verk verður að taka stöðuna og sjá hvort það séu einhverjar leiðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert