MAST undirbýr aðgerðir vegna riðu

mbl.is/Sigurður Bogi

Riðuveiki, sem hefur verið staðfest á búi í Svarfaðardal, er fyrsta tilfellið sem greinist á Norðurlandi eystra síðan 2009 en þá greindist riðuveiki á bænum Dæli í Svarfaðardal. Matvælastofnun vinnur nú að öflun upplýsinga og undirbúningi aðgerða.

Þetta kemur fram í frétt á vef MAST.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í dag, greindist riðan í sýni úr kind frá bænum Urðum í Svarfaðardal. Að sögn MAST er fjöldi fjár þar um hundrað.

„Sýnið var tekið samkvæmt skimunaráætlun Matvælastofnunar við slátrun í haust. Fjögur önnur sláturhúsasýni frá búinu voru einnig rannsökuð og reyndust neikvæð. Ekki hafði orðið vart neinna sjúkdómseinkenna. Sýnin voru rannsökuð á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum. Mikill fjöldi sýna er tekinn við haustslátrun og er því enn unnið að rannsókn á þeim,“ segir í frétt MAST.

Þekkt riðusvæði

Þá segir, að bærinn sé í Tröllaskagahólfi og þar hafi riðuveiki komið upp á fimm búum á undanförnum 20 árum en á þessu búi greindist veikin síðast árið 2003. Riðuveiki hefur komið upp á mörgum bæjum í Svarfaðardal í gegnum tíðina og má því segja að um þekkt riðusvæði sé að ræða.

„Þetta er fyrsta tilfelli riðuveiki sem greinist á árinu en í fyrra greindust tvö tilfelli á Norðurlandi vestra. Fram til ársins 2010 greindist riða á nokkrum bæjum á landinu á hverju ári en engin tilfelli hefðbundinnar riðu greindust á árunum 2011-2014. Riðan er því á undanhaldi en þetta sýnir að ekki má sofna á verðinum. Á undanförnum árum hafa sýni verið tekin við slátrun úr u.þ.b. þrjúþúsund kindum á ári. Jafnframt hafa bændur verið hvattir til að senda hausa til Keldna af fé sem drepst eða er lógað heima vegna vanþrifa, slysa eða sjúkdóma, eða hafa samband við dýralækni um að taka sýni úr slíku fé. Aukin áhersla er á að fá slík sýni þar sem það eykur líkur á að finna riðuna. 

Héraðsdýralæknir vinnur nú að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga og úttektar á búinu til að meta umfang aðgerða við förgun fjár, þrif og sótthreinsun. Því næst fer málið í hefðbundið ferli hvað varðar gerð samnings um niðurskurð,“ segir MAST.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert