Bretadrottning minntist Íslandsheimsóknar

Elísabet Bretadrottning tekur hér á móti sendiherra Íslands, Stefán Hauki …
Elísabet Bretadrottning tekur hér á móti sendiherra Íslands, Stefán Hauki Jóhannessyni. Hann segir hana vera hlýja og einlæga og að Íslandsheimsókn hafi verið henni í fersku minni. Ljósmynd/Breska konungshöllin

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í London, fór sl. fimmtudag til fundar við Elísabetu Bretadrottningu í Buckingham höll og afhenti henni trúnaðarbréf sitt undirritað af Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands.

Með honum í för til Buckingham hallar var eiginkona hans Halldóra Hermannsdóttir og segir Stefán Haukur fundinn með Bretadrottningu hafa verið skemmtilega stund. „Hún var afskaplega hlý og einlæg og sýndi okkur áhuga og minntist sinnar ferðar til Íslands,“ segir hann. Bretadrottning kom í opinbera heimsókn til Íslands í júní 1990 þegar Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands.

„Hún talaði af mikilli hlýju um heimsókn sína og talaði m.a. um íslenska hestinn og gangtegundir hans fimm og skeiðið sem gera hann einstakan. Það var henni mjög minnisstætt,“ segir Stefán Haukur og kveður Elísabetu einnig hafa rætt um heita vatnið sem  Íslendinga hafi og heimsóknin hafi augljóslega verið henni í fersku minni.

Stefán Haukur og Halldóra Hermannsdóttir eiginkona hans komu til hallarinnar …
Stefán Haukur og Halldóra Hermannsdóttir eiginkona hans komu til hallarinnar í konunglegum hestvagni. Bretar hafa haldið þessari hefð er sendiherrar afhenda trúnaðarbréf sitt og vilja með þessu sýna landinu virðingu. Ljósmynd/Íslenska sendiráðið í London.

Elísabet er orðin 91 árs gömul, en vel með á nótunum að sögn Stefáns Hauks. „Hún er búin að vera þjóðhöfðingi lengst allra og tók við sem þjóðhöfðingi í júní 1952. Þetta er mjög merk kona og nýtur mikillar virðingar ekki bara heima við, heldur um heim allan.“

Stefán Haukur, sem tók formlega við sem sendiherra Íslands í London 16. nóvember sl., segir Breta halda í þá hefði að sendiherrar afhendi þjóðhöfðingja landsins trúnaðarbréf þar sem þeir eru tilnefndir sem sendiherrar síns lands gagnvart Bretlandi. Ferðin til hallarinnar er síðan farin í konunglegum hestvagni. „Þeir eru að sýna landi okkar virðingu með þessu,“ segir hann.

Stefán Haukur færir hér hinum konunglegu hestum gulrætur að launum …
Stefán Haukur færir hér hinum konunglegu hestum gulrætur að launum fyrir flutningin. Ljósmynd/Sendiráð Íslands í London

„Ég átti ekki von á að þetta yrði fyrr en á næsta ári, þannig að það gekk bara tiltölulega fljótt fyrir sig að mér var boðið á hennar fund til þess að afhenda trúnaðarbréfið og ég er auðvitað mjög ánægður með að það er búið að ljúka þessum formsatriðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert