Verulega erfið færð í nótt

Ökumaður missti bifreið sína út í skurð á Suðurlandsvegi skömmu eftir miðnætti í nótt en mjög erfið færð var víða á Suðurlandi í nótt.

Að sögn lögreglu átti óhappið sér stað í brekkunni rétt austan við Þjórsá en engin slys urðu á fólki. Mjög snjóaði á þessum slóðum í gærkvöldi og þegar hlýnaði myndaðist mikill krapi á veginum. Færið var mjög erfitt að sögn lögreglu en auk þessa óhapps fór einn út af á Bakkavegi í Landeyjum. 

Lögreglan á Selfossi stöðvaði síðan för ölvaðs ökumanns í Hveragerði í gærkvöldi.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á Suðurlandi og flughálka á nokkrum köflum. 

Á Vesturlandi er hálka á Holtavörðuheiði, þungfært á Bröttubrekku og þæfingsfærð á Vatnaleið. Flughált er á sunnanverðu Snæfellsnesi. Ófært er á Fróðárheiði en unnið að hreinsun.

Það er hálka eða flughálka á vegum á Vestfjörðum. Ófært er yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði. 

Á Norðurlandi vestra eru aðalleiðir að mestu greiðfærar en annars er víða hált og flughált eins og er á Þverárfjalli. Hálka er á flestum leiðum á Norðausturlandi en flughált á Tjörnesi. 

Hálka eða hálkublettir eru á vegum á Austurlandi og snjóþekja eða hálka með suðausturströndinni en flughált á Mýrdalssandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert