Vilja komast burt af Íslandi

Chuck, Gail og Pat Spencer vilja komast heim til Houston …
Chuck, Gail og Pat Spencer vilja komast heim til Houston í Texas. mbl.is/RAX

„Við erum að reyna að komast burt af eyjunni þinni,“ segja þau Pat, Gail og Chuck Spencer í samtali við blaðamann mbl á Keflavíkurflugvelli. Þau áttu flug með Icelandair til Chicago í dag. Flugið þeirra var fellt niður og átti að reyna að koma þeim til New York í staðinn.

Óvíst hvort Icelandair taki þátt í kostnaði

Þau segjast þá þurfa að greiða um 64.000 krónur í flug frá New York til Houston í Texas, en þau áttu tengiflug frá Chicago til Houston með United Airlines. Ódýrara sé fyrir þau að bóka nýjan miða en flugfélagið United hafi viljað rukka þau um 105.000 krónur myndu þau breyta miðanum sem þau áttu fyrir.

Þau segjast ekki hafa fengið svör við því hvort Icelandair taki þátt í þeim kostnaði. „Þau gáfu okkur nafnspjald og sögðu að við gætum látið á það reyna.“ Ekki vilja þau skella skuldinni á Icelandair eða starfsfólk söluskrifstofu. „Þeir einu sem eiga sökina eru flugvirkjarnir, félagið þeirra fyrir að fara í verkfall.“

Þremenningarnir eru stödd hér á landi vegna þátttöku í Spartan Race hindrunarhlaupinu sem fór fram hér á landi um helgina. Þeir Gail og Chuck sögðust hafa komist rúma 48 kílómetra í myrkrinu. Hlaupinn er 8 kílómetra hringur eins oft og þátttakendur geta á 24 klukkustundum. „Þetta var krefjandi en við lifðum þetta af,“ segir Gail og hlær.

Hawin vill komast til New York en ferðalag hans byrjaði …
Hawin vill komast til New York en ferðalag hans byrjaði í Indónesíu. mbl.is/RAX

Frá Indónesíu til New York

„Ég átti flug á sunnudag en það var fellt niður svo ég er athuga hvort ég komist til New York í dag,“ segir Hawin sem er hingað kominn alla leið frá Indónesíu. Hann kvaðst ánægður með þjónustu Icelandair en hafi þó þurft að bíða heldur lengi eftir aðstoð í síma í gær.

„Vinur minn átti flug til Washington í gær en hann var færður í flug til Denver og þurfti svo að koma sér sjálfur til Washington,“ segir Hawin en rúmlega 3 klukkustunda flug eða 25 tíma keyrsla er á milli borganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert