Segist hafa verið starfsmaður á plani

Frá upphafi aðalmeðferðar markaðsmisnotkunarmáls Glitnis í morgun.
Frá upphafi aðalmeðferðar markaðsmisnotkunarmáls Glitnis í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jónas Guðmundsson, einn ákærðra í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis, gaf skýrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, við upphaf aðalmeðferðar í málinu. Jónas hóf störf hjá bankanum þann 1. mars árið 2007 og var ráðinn til starfa í deild eigin viðskipta innan Glitnis. Áður en Jónas hóf að svara spurningum ákæruvaldsins fékk hann leyfi til þess að lesa upp yfirlýsingu um aðkomu sína að málinu.

Í ræðu Jónasar kom fram að í starfi sínu hjá Glitni hefði hann verið starfsmaður á plani og ekki haft verulega fjárhagslega hagsmuni af þeirri meintu markaðsmisnotkun sem ákært er fyrir og að það endurspeglist af mánaðarlaunum hans, sem voru á þessum tíma um 750.000 krónur.

Einnig sagði Jónas að í starfi sínu hafi hann einfaldlega framfylgt þeirri stefnu sem hafði verið starfrækt innan bankans löngu áður en Jónas hóf störf. Ákvarðanir um starfsemi deildarinnar hafi verið teknar af hærra settum innan bankans.

Ákærutímabilið í málinu er frá 1. júní 2007 til og með 26. september árið 2008 og Jónas segir að hans hegðun í starfi hafi ekkert breyst frá því hann var ráðinn og út ákærutímabilið. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við störf hans og þau viðskipti sem hann stundaði á markaði.

„Ég var aldrei að fela neitt. Allir sáu og vissu hvað við værum að gera á markaði. Enginn gerði athugasemd við hegðun mína á markaði og ég hafði enga ástæðu til að ætla að ég væri að gera eitthvað sem væri andstætt lögum og reglum,“ sagði Jónas.

Hann sagðist hafa haft trú á bankanum sem hann vann hjá og að hann hafi talið að að hlutabréf bankans hefðu verið undirverðlögð.

„Ekkert vakti grunsemdir hjá mér um að bréf bankans væru of hátt skráð,“ segir Jónas, en hann er ákærður ásamt fjórum öðrum fyrir að hafa handstýrt gengi hlutabréfa í Glitni.

Lítil samskipti við Lárus Welding

Um samskipti við yfirmenn innan bankans sagði Jónas að þau hefðu verið mest við Magnús Pálma Örnólfsson, sem stýrði deild eigin viðskipta, auk Helga Þórs Logasonar, sem að sögn Jónasar setti hann inn í starfið.

„Lárus Welding þekki ég lítillega, hitti hann örsjaldan,“ sagði Jónas og sagði þá bara hafa rætt um daginn og veginn er þeir hittust. Hinsvegar segir hann að samskipti við Jóhannes Baldursson, framkvæmdastjóra markaðssviðs bankans, hafi verið nær dagleg, en þó ekki þess eðlis að Jóhannes hefði veitt honum bein fyrirmæli í starfi.

Björn Þorvaldsson er saksóknari í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis.
Björn Þorvaldsson er saksóknari í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann sagðist í raun ekki hafa fengið nein bein fyrirmæli í daglegum störfum sínu. Samskipti innan deildar eigin viðskipta hafi að mestu verið óformleg, starfsmenn deildarinnar hafi allir setið á sama stað og mest rætt munnlega sín á milli. 

Þó hafi verið vikulegir fundir með deild áhættustýringar, sem aldrei hafi gert neinar athugasemdir við starfshætti deildar eigin viðskipta Glitnis.

Man lítið eftir tíu ára gömlum símtölum

Símtöl og tölvupóstar frá ýmsum aðilum voru bornir undir Jónas, en hann sagðist lítið muna um efni þess sem þar kom fram, þar sem langt væri liðið frá því að hann hafi átt þessi samtöl.

Einn tölvupóstanna er frá Pétri Jónassyni starfsmanni eigin viðskipta til Jónasar, dagsettur þann 20. ágúst 2007. Þar skrifar Pétur:

„Tók Gl.B upp í 27.75," og virðist þar vísa til gengis hlutabréfa í bankanum.

Um þetta sagði Jónas að hann geti lítið sagt, enda séu rúm tíu ár liðin frá þessum samskiptum. Það sama átti við um mörg önnur símtöl, meðal annars eitt þar sem Jónas sagði við samstarfsfélaga:

„Djöfull ertu erfiður maður, veistu ekki að eg er að reyna að hækka markaðinn?“

Jónas sagði ákæruvaldið handvelja símtöl sem séu með einhverjum „kjánalegum setningum í.“

„Þið hafið hlustað á símtalið er það ekki? Við erum að grínast þarna. Ég man eftir þessu símtali, þetta er bara létt grín á milli vina þarna,“ sagði Jónas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert