Tímamót í endurnýtingu úrgangs

Framleiðsla Lífdísils er seld til N1 til íblöndunar í venjulega …
Framleiðsla Lífdísils er seld til N1 til íblöndunar í venjulega dísilolíu. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirtæki sem sem nota endurnýttan úrgang til framleiðslu geta nú flokkað afurðirnar sem vöru í stað úrgangs. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun. Þar segir að stofnunin hafi í desember sl. gefið út  fyrsta ráðgefandi álit sitt um endurnýtingu úrgangs.

Var álitið unnið vegna endurnýtingaraðgerðar Lífdísils ehf. og snerist um það „hvort úrgangur hætti að vera úrgangur þegar hann hefur farið í gegnum endurnýtingaraðgerð fyrirtækisins“.

Í áliti stofnunarinnar segir að hún telji Lífdísil hafa sýnt fram á að framleiðsluvara fyrirtækisins geti uppfyllt skilyrði og að fullnægjandi verkferlar séu til staðar til að tryggja að varan uppfylli ávallt settar kröfur. Fyrirtækið endurnýtir lífrænan úrgang, einkum sláturúrgang, til framleiðslu á lífdísileldsneyti, en um er að ræða samstarfs- og tilraunaverkefni Lífdísils og SORPU. Endurnýtingarferlið felur í sér að fitan í sláturúrganginum er skilin frá og með hjálp hvata, m.a. metanóls, er henni breytt í lífdísil í efnahvarfi og framleiðslan seld til N1 til íblöndunar í venjulega dísilolíu.

Er það mat Umhverfisstofnunar að sá sláturúrgangur sem endurnýttur er til lífdísilframleiðslu hjá fyrirtækinu geti hætt að teljast úrgangur og flokkist sem vara

„Frá og með þeim tímamótaskrefum sem nú hafa verið stigin, gefst þeim fyrirtækjum sem framleiða afurðir með því að endurnýta úrgang, tækifæri til að markaðssetja úrgangsafurð sína sem vöru. Með skrefinu opnast leið til að breyta úrgangi aftur í vöru, með endurnýtingaraðgerð, jafnvel þótt ekki liggi fyrir sérstök viðmið um lok úrgangsfasa,“ segir í tilkynningunni.

Sérstök viðmið um lok úrgangsfasa fyrir tilteknar gerðir brotajárns, glerbrot og koparrusl er þó að finna í reglugerð um lok úrgangsfasa. „Tilgangur þess að skera úr um lok úrgangsfasa og veita viðlíka ráðgefandi álit er að stuðla að hringrænu hagkerfi þar sem hráefni haldast innan hagkerfisins sem stuðlar að sjálfbærari auðlindanýtingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert