18 milljónir til flóttakvenna

Amira er 53 ára og flúði Sýrland fyrir tæpum sex …
Amira er 53 ára og flúði Sýrland fyrir tæpum sex árum. Eiginmaður hennar er týndur en ekkert hefur spurst til hans síðan síðan um mitt ár 2012.

UN Women á Íslandi hefur fært griðastöðum UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu rúmar 18 milljónir króna, sem söfnuðust í neyðarsöfnun og jólagjafasölu landsnefndarinnar.

Með söfnunarfénu sem Íslendingar létu af hendi í átaki landsnefndarinnar verður þrjátíu konum í búðunum veitt atvinna og laun í heilt ár auk þess sem rúmlega 1250 nýbökuðum mæðrum í Zaatari verður afhentur Mömmupakki UN Women sem inniheldur ungbarnaföt, burðarrúm og ullarsjal fyrir mömmuna. Þess má geta að á bilinu 60-80 börn fæðast á viku í Zaatari búðunum, samkvæmt fréttatilkynningu.

Síðastliðið haust heimsótti UN Women á Íslandi ásamt Elizu Reid forsetafrú Íslands, Evu Maríu Jónsdóttur verndara UN Women á Íslandi og tökuteymi, griðastaði UN Women í Zaatari búðunum.

„Þar eru konur öruggar, fá atvinnutækifæri, menntun og daggæslu fyrir börn sín. Vegna þeirra mörg hundruð kvenna sem eru á biðlista eftir menntun og atvinnu á griðastöðum UN Women efndi UN Women á Íslandi til neyðarsöfnunar. Zaatari búðirnar eru staðsettar í eyðimörk í Jórdaníu, aðeins nokkrum kílómetrum frá landamærum Sýrlands. Þar halda til um 82 þúsund Sýrlendingar sem flúið hafa heimahagana og eru atvinnutækifæri fyrir konur í búðunum af skornum skammti,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert