30 kílómetrar malbikaðir í fyrra

Malbikað í borginni.
Malbikað í borginni. mbl.is/Styrmir Kári

Malbikað var fyrir tæpar 1.300 milljónir króna í Reykjavík á síðasta ári. Fyrir það fengust 30 kílómetrar af malbiki sem er um 7,1% af heildarlengd gatnakerfisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar segir ennfremur að þessar malbiksframkvæmdir séu til að bæta úr brýnni þörf en heildarúttekt á malbikunarþörf var unnin á vegum borgarinnar og gerð áætlun til fimm ára um nauðsynlegar framkvæmdir. Verkefnið er hluti af átaki sem Reykjavíkurborg, Vegagerðin og Garðabær tóku höndum saman um í upphafi síðasta árs, að frumkvæði borgarstjóra. 

Í fyrra voru alls malbikaðir 226.821 fermetrar eða 30 km í borginni í öllum hverfum hennar. Lagt var nýtt malbik á fyrir rúmar 1.100 milljónir króna og gert við götur fyrir tæpar 200 milljónir króna.

Í ár er stefnt að því að malbika enn meira í borginni eða fyrir 1.740 milljónir króna. Alls verða malbikaðir 43 kílómetrar af götum borgarinnar á þessu ári.  Þegar þrjú ár eru tekin saman, 2016 – 2018 er kostnaður við malbiksframkvæmdir 3.740 milljónir króna og kílómetrarnir verða alls 90 með þeim sem verða malbikaðir í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert