Segir málatilbúnaðinn ósanngjarnan

Lárus Welding í héraðsdómi í gær.
Lárus Welding í héraðsdómi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, gaf skýrslu við aðalmeðferð markaðsmisnotkunarmáls bankans í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, síðastur sakborninga. Hann neitaði sem fyrr þeim sökum sem á hann eru bornar, en hann er ákærður í öllum þremur ákæruliðum málsins.

Lárus, eins og aðrir sakborningar í málinu, hélt stutta tölu um efni ákærunnar áður en hann byrjaði að svara spurningum saksóknara. Þar gagnrýndi hann framgöngu sérstaks saksóknara við rannsókn mála sem tengjast bankahruninu og sagði ákæruvaldið hafa farið fram með offorsi.

Hann sagði að sér hefði nú þegar verið gerð nokkur refsing með „tíu ára óvissu“ frá því að hann lauk störfum hjá Glitni, eftir að hafa starfað sem forstjóri í 17 mánuði.

„Þetta er í sjötta skipti á jafnmörgum árum sem ég sit í þessum stól sem sakborningur,” sagði Lárus og sagði ekki vita hvenær hann fengi endanlega úrlausn sinna mála, en að hann byggist ekki við því að það væri fyrr en eftir nokkur ár.

Hann sagði ljóst að kerfið hefði brugðist og að ósanngjarnt væri að gera það, sem hefði verið almennt verklag íslensku bankanna í fjöldamörg ár, að sakamálum síðar meir. Víðtæk viðskipti fjármálastofnana með eigin hlutabréf hefði verið óheppileg, það hefði komið í ljós. Lagabreyting í þeim efnum árið 2010 hefði því verið nauðsynleg og skynsamleg, en erfitt væri að þurfa að verjast því í dómsal að hafa brotið núgildandi lög árið 2007.

„Það getur ekki talist sanngjarn málatilbúnaður að gera verklag við eigin viðskipti sem voru metnir sem eðlilegir starfshættir skyndilega að stórfelldum lögbrotum tíu árum síðar,“ sagði Lárus.

Þríþætt ákæra á hendur Lárusi

Í þessu máli er Lárus ákærður fyrir markaðsmisnotkun í tveimur liðum og umboðssvik í einum lið ákærunnar.

I – Markaðsmisnotkun á kauphlið

Í fyrsta lagi er Lárus ákærður fyrir að hafa ásamt Jóhannesi Baldurssyni, fyrrum framkvæmdastjóra markaðsviðskipta, lagt línurnar í markaðsmisnotkun sem framkvæmd var af starfsmönnum í deild eigin viðskipta Glitnis. Sú meinta markaðsmisnotkun fólst í umfangsmiklum og kerfisbundnum kaupum á hlutabréfum í Glitni banka í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Með kaupunum var komið í veg fyrir eða hægt á lækkun á hlutabréfaverði Glitnis, samkvæmt ákæru saksóknara.

Um þennan lið ákærunnar sagði Lárus að engar sannanir né vitnisburðir liggi til stuðnings þess að Lárus hefði lagt á ráðin um framlagningu kauptilboða á vegum deildar eigin viðskipta Glitnis. Hann lagði áherslu á að fyrirkomulagið hefði verið með þessum hætti er hann var ráðinn forstjóri félagsins og að eina leiðin fyrir hann að sleppa við ákæru hefði verið að breyta þessu verklagi um leið og hann var ráðinn.

Lárus Welding er ákærður í þremur liðum, fyrir markaðsmisnotkun og …
Lárus Welding er ákærður í þremur liðum, fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. mbl.is/Kristinn Magnússon

II – Markaðsmisnotkun á söluhlið

Í öðru lagi er Lárus ákærður fyrir markaðsmisnotkun vegna sölu hlutabréfa, með því að hafa komið á viðskiptum með hlutabréf í Glitni við fjórtán nýstofnuð félög sem voru í eigu starfsmanna bankans. Viðskiptin fóru fram 15. og 16. maí árið 2007. Alls seldi bankinn hlutabréf til þessara starfsmanna að andvirði 6,77 milljarða króna og voru lánin til kaupanna fjármögnuð af bankanum sjálfum, án nokkurra veða nema hlutabréfanna sjálfra.

Í ákærunni segir að þar sem engar aðrar tryggingar hafi verið fyrir hendi en hinir seldu hlutir, hafi viðskiptin, sem byggst hafi á blekkingum og sýndarmennsku, verið líkleg til að gefa eftirspurn eftir hlutunum í bankanum ranglega og misvísandi til kynna.

Lárus sagði að sala Glitnis á hlutabréfum til starfsmannana 14 hefði verið liður í því að viðhalda hvatakerfi innan bankans. Kaupréttir lykilstarfsmanna á þessum tíma hafi verið orðnir „alveg verðlausir“ og því ekkert hvatakerfi verið til staðar. Glitnir hafi þurft á fólkinu að halda til að stýra bankanum í gegnum ólgusjó.

Skapa hefði þurft hvata fyrir starfsmennina  „til að halda áfram að vera 24 tíma á sólarhring í vinnunni,” sagði Lárus.

„Frágangurinn á þessu máli er alls ekki til fyrirmyndar,“ viðurkennir Lárus en hann ítrekaði að lánveitingar til starfsmannana hafi verið með fullu samþykki stjórnar. Þorsteinn Már Baldvinsson, þáverandi stjórnarformaður Glitnis, hafi verið með honum í að útfæra lánveitingarnar til einkahlutafélaga starfsmanna og skrifað undir þær með honum.

Lárus spurði saksóknara að því, hversu líklegt það væri að Þorsteinn, sem „mjög reyndur maður í viðskiptum,“ hefði verið að vinna að þessu með honum á skjön við vilja stjórnarinnar?

III – Umboðssvik við útlán til hlutabréfakaupa

Í þriðja og síðasta lagi er Lár­us svo ákærður fyr­ir umboðssvik með því að hafa stefnt fjár­mun­um Glitnis í hættu og farið út fyr­ir lána­heim­ild­ir sín­ar þegar lán­veit­ing­ar til fé­lag­anna fjór­tán voru samþykktar.

Þessi ákæruliður lýtur að sömu aðgerðum og Lárus svaraði fyrir í öðrum ákærulið og snýr í rauninni að því sama, að Lárus hafi framkvæmt lánveitingarnar til einkahlutafélaga starfsmanna án þess að hafa til þess samþykki stjórnar Glitnis. Því neitar hann, eins og áður hefur fram komið, þó að hann viðurkenni að vissulega hefði mátt bóka gjörninginn betur. Ásetningurinn hafi verið sá að skapa hvata fyrir starfsmenn bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert