Lögreglan lokaði verslunum The Viking

The Viking við Hafnarstræti í Reykjavík.
The Viking við Hafnarstræti í Reykjavík. Ljósmynd/Vefsíða The Viking

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri hefur lokað þremur verslunum The Viking að beiðni embættis tollstjóra.

Lögreglan á Akureyri staðfesti við mbl.is að hún hafi lokað og innsiglað verslun The Viking við Hafnarstræti á Akureyri í gær.

Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var báðum verslunum The Viking í Reykjavík einnig lokað í gær. Í samráði við tollstjóra var ákveðið að innsigla þær ekki.

Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir, deildarstjóri lögfræðideildar á innheimtusviði tollstjóra, segist ekki geta tjáð sig um einstök mál.

Almennt segir hún að innheimtumenn ríkissjóðs hafi heimild til að láta stöðva atvinnurekstur ef það eru vanskil á ákveðnum gjaldtegundum og sköttum. Þá er um að ræða þær tegundir af sköttum sem tengjast atvinnurekstri mest, þ.e. virðisaukaskatt, staðgreiðslu launagreiðenda og tryggingagjald.

„Það er farið í þessar aðgerðir ef önnur vægari úrræði bera ekki árangur. Það er alltaf hægt að komast hjá svona úrræðum ef greitt er inn á kröfuna og gerðar greiðsluáætlanir hjá innheimtumanni ríkissjóðs,“ segir Jóhanna Lára.

Hún segir það ekki algengt að beita þurfi þessum aðgerðum til fulls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert