Ályktað um aðflug

Akureyrarflugvöllur
Akureyrarflugvöllur mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum að taka undir bókun Ferðamálafélags Eyjafjarðar um að tryggja þurfi öruggt aðflug að Akureyrarflugvelli.

„Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar tekur undir bókun Ferðamálafélags Eyjafjarðar og skorar á samgönguyfirvöld og þingmenn kjördæmisins að bregðast við þannig að öruggt aðflug verði tryggt að Akureyrarflugelli úr báðum áttum.

Ályktun Ferðamálafélags Eyjafjarðar er efnislega eftirfarandi:

"Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar hvetur samgönguyfirvöld þegar í stað til að koma fyrir nauðsynlegum tækjabúnaði á Akureyrarflugvelli sem tryggir öruggt aðflug að vellinum úr báðum áttum.

Í dag er ferðaþjónustan á Íslandi að þróast í tvö svæði sem stöðugt gliðnar á milli. Annars vegar "heita svæðið" Suður- og Vesturland og hins vegar "kalda svæðið" Vestfirðir, Norðurland og Austurland. Í ljósi breyttrar ferðahegðunar erlendra ferðamanna er ljóst að VNA-svæðið nær ekki til sín þeirri aukningu sem greina má á SV-svæðinu, heldur hafa gistinætur frekar dregist saman.

Til að sporna við þessu er eitt stærsta hagsmunamálið að fá inn á svæðin beint áætlunarflug frá útlöndum. Að því hefur verið unnið hér á Norðurlandi í mörg ár og því skýtur það skökku við að loksins þegar úr fer að rætast skuli samgönguyfirvöld ekki standa betur að málum og tryggja að allur nauðsynlegur búnaður sé til staðar. Það er engu líkara en þau hafi sofið á verðinum.

Við hvetjum samgönguráðherra til að bregðast við þegar í stað og tryggja að Akureyrarflugvöllur verði fullbúinn tækjum og mannvirkjum til að hægt verði að efla ferðaþjónustuna á svæðinu."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert