Ef maður gerir ekki neitt gerist heldur ekki neitt

„Allt of margir eru áhorfendur en ekki þátttakendur í eigin lífi vegna þess að þá skortir kjark til að spyrja sjálfa sig hvað þá í alvörunni langar til að gera, eignast og verða,“ segir Ingvar Jónsson, markþjálfi og höfundur nýútkominnar bókar, Sigraðu sjálfan þig – Þriggja vikna áskorun fyrir venjulegt fólk sem vill meira!

Ingvar Jónsson.
Ingvar Jónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á meðan bókaútgefendur voru í gríð og erg að koma bókum sínum í búðir fyrir jólin og höfundar fylgdust spenntir með sölutölum, var a.m.k. einn alveg sallarólegur. Hann vissi að sinn tími myndi koma. Þann 4. janúar gaf Vaka-Helgafell út bókina Sigraðu sjálfan þig – Þriggja vikna áskorun fyrir venjulegt fólk sem vill meira! eftir Ingvar Jónsson, stjórnunar- og markaðsfræðing og markþjálfa. „Markviss markaðssetning af augljósum ástæðum,“ segir hann brosandi, en útskýrir engu að síður:

„Í byrjun árs hyggst fólk oft taka til í eigin lífi, venja sig af slæmum siðum, byrja upp á nýtt og setja sér markmið. Sumir ætla að laga mataræðið, grenna sig og hugsa betur um heilsuna. Heilsan er þó aðeins hluti af heildstæðri nálgun minni til að liðsinna fólki með að ná markmiðum sínum; þeim sem vilja brjótast út úr viðjum vanans, stefna hærra og sækja lengra í starfi eða einkalífi. Lykilþættirnir eru heilsa og orkustjórnun, innri- og ytri samskipti, fjölskyldan, vinir og kærleikur, lærdómur og gróska, umhverfi og aðstæður, áhugamál, vinna og fjárhagur,“ þylur Ingvar umbeðinn upp og bætir við að í grunninn snúist markþjálfun um að auka fólki tilfinningagreind og um leið sjálfstjórn og hæfni til samskiptastjórnunar.

Að sigra sjálfan sig

Ingvar nam markþjálfun í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn og fékk réttindin ári síðar hér heima. Hann hefur starfað sem markþjálfi í sex ár og síðustu fimm í eigin ráðgjafar- og þjálfunarfyrirtæki, Profectus, sem einnig er með starfsemi í Kanada, Suður-Afríku og á Írlandi. Hann er ekki alveg ókunnugur bókabransanum því árið 2015 gaf hann, ásamt hollenskum kollega sínum og meðhöfundi, út bók á ensku um nútíma stjórnunarhætti og markþjálfun, The Whole Brain Leader.

„Bókin kom út á Íslandi og í Hollandi og er væntanleg á markað í Indlandi í næsta mánuði. Alþjóðlega útgáfufyrirtækið SAGE falaðist eftir að gefa hana út,“ segir Ingvar og er ekki að ósekju stoltur af að fá bókina útgefna á margfalt stærri markaði en Íslandi.

En aftur að nýju bókinni, sem að sögn Ingvars byggist á hugmyndafræði markþjálfunar og ekki síst á reynslu hans sjálfs eftir mörg hundruð samtöl sem markþjálfi. Í bókinni eru fjölmörg verkfæri til að auðvelda lesendum að ná markmiðum sínum – sigra sjálfa sig, eins og þar stendur. Þeir þurfa að hafa skriffæri við hendina því í hverjum kafla eru spurningar.

Óþægilegar spurningar

„Bókin er þrískipt, í byrjun horfast lesendur í augu við stöðuna eins og hún er, síðan fara þeir í rannsóknarvinnu og innri skoðun, og ljúka vinnunni með því að móta aðgerðir og setja sér markmið. Hlutverk markþjálfans er ekki að segja fólki hvað það á að gera, heldur spyrja réttu spurninganna til að hjálpa því að sjá viðfangsefnin í öðru ljósi. Spurningarnar eru á stundum býsna óþægilegar og beinskeyttar, enda er lesendum ætlað að rýna í sjálfa sig og setja sér leikreglur til þess að auka möguleika sína á að vinna leikinn,“ segir Ingvar og leggur áherslu á að sjálfsvirðing og heiðarleiki skipti mestu máli. Einnig sé mikilvægt að vera laus við meðvirkni gagnvart sjálfum sér og öðrum.

Áður en lengra er haldið er ráð að biðja Ingvar um að útskýra örstutt helsta markmið markþjálfunar. „Að hámarka möguleika einstaklingsins til að verða betra eintak af sjálfum sér,“ svarar hann að bragði og heldur áfram: „Markþjálfun snýst ekki um að kenna, heldur að hjálpa fólki að læra. Og öfugt við það sem margir halda eru skýr skil á milli markþjálfunar og sálfræði. Skilin liggja í núinu því sálfræðingar líta til baka og vilja skoða og laga það sem afvega hefur farið í fortíðinni, en markþjálfi skoðar styrkleika manneskjunnar og horfir með henni til framtíðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert