Millilandaflug verði tryggt í sessi

Akureyrarflugvöllur.
Akureyrarflugvöllur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Bæjarráð Akureyrar hefur skorað á þingmenn, ríkisstjórn, samgönguráð og Isavia að grípa nú þegar til nauðsynlegra ráðstafana til að styðja við og tryggja í sessi millilandaflug um Akureyrarflugvöll.

Sveit­ar­stjórn Eyja­fjarðarsveit­ar hefur einnig tekið und­ir bók­un Ferðamála­fé­lags Eyja­fjarðar um að tryggja þurfi ör­uggt aðflug að Ak­ur­eyr­arflug­velli.

Bæjarráð Akureyrar segir brýnt að komið verði upp ILS-aðflugsbúnaði við völlinn, að því er kemur fram í fundargerð.

Njáll Trausti Friðberts­son alþing­ismaður, sem starfaði sem flug­um­ferðar­stjóri á Ak­ur­eyri í ald­ar­fjórðung, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að sinn skiln­ing­ur væri að fjár­veit­ing til kaupa á búnaðinum væri tryggð í fjár­lög­um sem samþykkt voru fyr­ir ára­mót.

Tilkomu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll var einnig fagnað á fundi bæjarráðs í tengslum við ferðir ferðaskrifstofunnar Super Break sem hófust í síðustu viku.

Bæjarráðið kallar jafnframt eftir því að forsvarsmenn Isavia og formaður samgönguráðs fundi með bæjarstjórn vegna frekari framkvæmda við flugvöllinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert