Trúi ekki að neinn langi að rífa sundhöllina

Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, telur engan í …
Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, telur engan í raun vilja rífa gömlu sundhöllina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reykjanesbúar virðast ekki allir sáttir við áætlun um að rífa gömlu sundhöllina í Keflavík. Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er ein þeirra sem vill bjarga sundhöllinni, sem teiknuð var af Guðjóni Samúelssyni, frá niðurrifi. Í gær stofnaði hún Facebook-hópinn Björgum sundhöll Keflavíkur og í dag eru félagarnir orðnir tæplega 900.

„Ég geri varla annað en að samþykkja beiðnir um inngöngu,“ segir Ragnheiður Elín og kveðst vera alsæl með stuðninginn. „Öll viðbrögð við þessu hafa verið á einn veg. Ég renndi blint í sjóinn, en planið var að kanna hvort að það væru ekki örugglega fleiri en ég sem eru þessara skoðunar.“

Ragnheiður Elín hefur líka fundið fyrir miklum meðbyr frá því hún skrifaði í byrjun mánaðarins Skipulagsstjóra Reykjanesbæjar umsögn og mótmælti niðurrifi sundhallarinnar. Facebook-hópurinn er framhald á því og segir hún þau nú þurfa að koma þessum vilja sínum skýrt á framfæri við bæjaryfirvöld, mögulega með fundarhöldum eða yfirlýsingu.

„Það er svo skemmtilegt að ég er að komast að því að þetta er ekki bara sundlaugin okkar Keflvíkinga. Ég er að fá pósta frá Grindavík þar sem menn eru að tala um að þetta hafi ekki síður verið sundlaugin þeirra á sínum tíma. Þarna lærðu líka sjómenn alls staðar að af Suðurnesjum að synda.“

Þá sé verið að taka saman heildaryfirlit á verkum Guðjóns Samúelssonar. „Það fær mann til að hugsa að þetta er ekki bara byggingasaga okkar hér, heldur varðar þetta okkur öll. Þetta er byggingasaga og saga Guðjóns sem er auðvitað stórmerkileg.“

Ekki er búið að heimila niðurrif á byggingunni og kveðst Ragnheiður Elín bjartsýn að það takist að koma í veg fyrir að það verði gert. „Bæði hafa viðbrögðin verið slík og eins held ég að innst inni þá langi engan til þess að rífa þetta.“ segir hún. Deiliskipulagstillagan nú sé sú þriðja eða fjórða sem gerð hafi verið, en sú fyrsta þar sem að lagt er til að sundhöllin sé rifinn og það þrátt fyrir að áður hafi verið uppi hugmyndir um byggingu háhýsa.

„Ég tel ómaksins virði að teikna [reitinn] í eitt skipti í viðbót og láta þetta allt rúmast saman. Ég held að það sé ekki útilokað að ná lendingu þannig að húsið fái að halda sér og að það verði samt sem áður unnt að byggja þarna íbúðir. Ég trúi því líka ekki að óreyndu að bæjarstjórnin fari í að rífa sundhöllina, ef að þessi mikla andstaða við hugmyndina kemur skýrt fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert