Ábyrgð samfélagsmiðla nú til umræðu

Margir velta fyrir sér ábyrgð samfélagsmiðla á dreifingu efnis eftir …
Margir velta fyrir sér ábyrgð samfélagsmiðla á dreifingu efnis eftir að tvö mál er snúa að stafrænu kynferðisofbeldi komu upp. AFP

Lærdómurinn fyrir íslenska unglinga, sem eru endalaust að senda nektarmyndir af sér í gegnum Snapchat, er sá að þegar fólk áframsendir nektarmyndir af fólki sem er börn í lagalegum skilningi, þá er það að deila barnaklámi,“ segir María Rún Bjarnadóttir, doktorsnemi í lögfræði við háskólann í Sussex á Bretlandi.

Tvö mál er snúast um stafrænt kynferðisofbeldi hafa vakið athygli að undanförnu. Í Danmörku hafa 1.004 ungmenni verið ákærð fyrir að hafa deilt kynlífsmyndbandi af 15 ára krökkum í gegnum Facebook Messenger. Á Norður-Írlandi fór 14 ára stúlka í mál við Facebook eftir að maður birti nektarmynd af henni á svokallaðri „skammar“-síðu.

Í báðum tilvikum hefur Facebook sýnt að miðillinn hefur stjórn á efni sem þar birtist. Því vakna spurningar um hvort hægt sé að lögsækja Facebook vegna óviðurkvæmilegra myndbirtinga. María Rún telur að bæði þessi mál eigi sér mikilvægan samnefnara og að ekki sé endilega hægt að líta svo á að þetta eigi við öll mál.

Flokkað sem barnaklám

„Lykilatriðið í þessum tveimur málum er að þarna er um myndir af börnum að ræða. Þetta er flokkað sem barnaklám og löggjöfin í öllum ríkjum er miklu stífari þegar um slíkt er að ræða. Nektarmyndir af börnum undir 15 ára flokkast sem barnaníð. Ef þessi mál hefðu varðað fullorðna einstaklinga þá hefðu þau ekki endilega farið svona.“

María segir að af fréttaflutningi frá Danmörku að dæma virðist sem Facebook hafi látið lögregluna vita að verið væri að dreifa þessu efni á Messenger-forriti miðilsins.

„Sem er athyglisvert því það sýnir að fylgst er með innihaldinu. Þeir eru að fylgjast með því hvort verið sé að brjóta þeirra reglur. Það gilda sömu reglur um Facebook og Messenger en aðeins aðrar reglur um Whatsapp og Instagram. Þetta kemur almennum notendum við. Ef þú ert að dreifa einhverju ólöglegu máttu vita að Facebook er á vaktinni. Þetta er merki um það að miðillinn er vakandi fyrir því hvort það eigi sér stað lögbrot í gegnum hann eða ekki.“

María segir að málið á Norður-Írlandi sé öðruvísi, það hafi verið einkamál sem samið var um áður en það fór fyrir dóm. Því sé ekki hægt að vita nákvæmlega hvað lá til grundvallar niðurstöðunni.

„Dreifing þessarar myndar er í andstöðu við reglur Facebook. Þar er kerfi sem virkar þannig að ef mynd er hlaðið inn og einhver tilkynnir að hún sé barnaklám og hún er í kjölfarið merkt sem slík, þá eigi ekki að vera hægt að hlaða viðkomandi mynd aftur inn á Facebook. En í þessu tilviki var það hægt.

Það er kannski ekki hægt að draga víðtæka niðurstöðu af þessu máli en það er hins vegar áhugavert hvort samfélagsmiðlar verði látnir sæta ábyrgð á efni sem aðrir einstaklingar hlaða inn á þá. Hugmyndafræðin á bakvið þá hefur grundvallast á því að miðillinn beri ekki ábyrgð á því sem þriðji aðili setur upp.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert