Borgarlínan „skynsamlegasta lausnin“

Borgarlínan er hugsuð sem hraðvagnakerfi með sérakreinum fyrir vagnana.
Borgarlínan er hugsuð sem hraðvagnakerfi með sérakreinum fyrir vagnana.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, segir að þó að borgarlínan sé ekki lausn við öllu í tengslum við samgöngur á höfuðborgarsvæðinu sé hún „algjörlega hluti af lausninni“. Segir hún að sjálfkeyrandi bílar breyti þar engu um, enda þurfi þeir líka rými á vegunum. Mismunandi samgöngumátar séu allt hlutar af heildarlausninni. Þetta kom fram í Vikulokunum á Rás 1 í morgun þar sem meðal annars var rætt um samgöngumál.

Fjölgun íbúa um 70 þúsund aðalmálið

Bryndís hefur komið að skipulagsmálum hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og er í stjórn Strætó. Sagði hún að aðalmálið sem horfa þyrfti til væri að til ársins 2040 væri því spáð að íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu yrði um 70 þúsund manns. Sagði hún að þegar rætt væri um borgarlínu ætti að hafa í huga þessa fjölgun en ekki einstaka þrengingar á vegum og götum.

Sagði Bryndís að fólk myndi alltaf þurfa að komast á milli staða og þar sem flestir ferðuðust á háannatíma væri borgarlínan  „skynsamlegasta lausnin“ að bjóða upp á til að koma fjölda fólks á milli staða á sem skemmstum tíma.

Bryndís Haraldsdóttir.
Bryndís Haraldsdóttir.

Tók hún fram að ekki mætti setja þetta upp eins og andstæða póla þar sem annaðhvort allir ættu að ferðast með borgarlínu eða að vera á einkabílum. „Þetta er ekki þannig,“ sagði hún. Bætti hún við að menn gætu verið ósammála um ákveðna þætti í skipulagsmálum og hvernig einstaka götur eða umferðarmannvirki væru, en með borgarlínunni væri verið að mæta ákveðinni þörf í samgöngum og horfa til framtíðarfjölgunar íbúa.

Segir misskilnings gæta í viðhorfum Eyþórs

Borgarlínan hefur nokkuð verið í umræðunni undanfarið, en af frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í leiðtogaprófkjöri í Reykjavík hafa allir frambjóðendur nema einn lýst yfir andstöðu eða efasemdum við uppbyggingu hennar. Sagðist Bryndís lýsa yfir stuðningi við Áslaugu Friðriksdóttur, eina frambjóðanda flokksins sem væri hlynnt framkvæmdinni. 

Var Bryndís spurð út í andstöðu Eyþórs Arnalds, frambjóðanda í leiðtogakjörinu, og sagðist hún telja ákveðins misskilnings gæta í viðhorfum hans með til dæmis þrengingar Miklubrautar og vísaði aftur til þess að samgöngumáti eins og borgarlína eða aðrar almenningssamgöngur gætu komið mun fleirum á milli staða.

Hugmyndir um legu borgarlínu eins og þær voru settar fram …
Hugmyndir um legu borgarlínu eins og þær voru settar fram um mitt síðasta ár. Mynd/mbl.is

Þá sagði hún einnig að vagnar Strætó væru alls ekki tómir eins og Eyþór hafði sett fram í grein sinni í vikunni. Sagði hún að nýting þeirra væri heilt á litið góð, þótt auðvitað mætti hún vera betri. Þá hefði nýtingin verið að batna ár frá ári, þó að ekki hafi náðst árangur um hlutfall ferða hjá íbúum. Aftur á móti hefði farþegum fjölgað á hverju ári undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert