Mikið framboð af lækna­dópi „sláandi“

Inga Rut Helgadóttir skoðaði hópa á samfélagsmiðlum sem selja fíkniefni.
Inga Rut Helgadóttir skoðaði hópa á samfélagsmiðlum sem selja fíkniefni. mbl.is/Árni Sæberg

Mikið fram­boð og gott aðgengi er að fíkni­efn­um á sam­fé­lags­miðlum. Um 60 lokaðir hóp­ar eru á Face­book þar sem fíkni­efni eru boðin til sölu á Íslandi. Talið er að kaup og sala fíkni­efna fari helst þar fram. Þetta kem­ur fram í BA-rit­gerð Ingu Rut­ar Helga­dótt­ur í fé­lags­fræði sem nefn­ist: Fíkni­efni á sam­fé­lags­miðlum: Rann­sókn á sölu og dreif­ingu fíkni­efna á sam­fé­lags­miðlum.

Rit­gerðin er hluti af samn­or­rænu sam­fé­lags­verk­efni sem Helgi Gunn­laugs­son, pró­fess­or í fé­lags­fræðideild Há­skóla Íslands og leiðbein­andi henn­ar, tek­ur þátt í fyr­ir hönd Íslands ásamt Ingu. Rann­sókn­in kall­ast fíkni­efna­sala á sam­skiptamiðlum inn­an Norður­land­anna: blönd­un staðbund­innar og tækni­legr­ar miðlun­ar við fíkni­efna­sölu. Rann­sókn­in felst í því að leita uppi síður eða hópa á net­inu sem selja eða kaupa fíkni­efni hér á Íslandi. Þetta er fyrsta rann­sókn­in sem skoðar þetta á Íslandi. 

Auðvelt að komast í hópana ef áhugi er fyrir hendi

„Mér fannst slá­andi hversu mikið fram­boð er af fíkni­efn­um, sérstaklega af am­feta­míni, kókaíni og lækna­dópi og hversu auðvelt það er að kom­ast í þessa hópa ef maður hef­ur áhuga á því,“ seg­ir Inga Rut. Fyr­ir ­fram taldi hún að helst væri boðið upp á kanna­bis en sú var ekki raun­in.  

Inga Rut hafði aldrei áður verið í hóp­um á sam­fé­lags­miðlum sem buðu fíkni­efni til sölu fyrr en ný­verið. „Ég þurfti aðeins að leggja höfuðið í bleyti til að finna leiðir hvernig ég gæti fengið aðgang í hóp­ana. Það tók mig viku,“ seg­ir Inga Rut. Hún fékk aðganga í 28 hópa sem seldu alls kyns fíkni­efni á síðustu fjór­um mánuðum síðasta árs. Þegar hún var fyrst kom­in inn í einn hóp gat hún auðveld­lega kom­ist inn í fleiri. All­ir nema einn hóp­anna eru með stillt á leyni­lega still­ingu á Face­book.

Myndir af fíkniefnum á samskiptamiðlum.
Myndir af fíkniefnum á samskiptamiðlum. Skjáskot úr safni

Stórir hópar sem stækka ört

„Ég gerði mér eng­an veg­inn grein fyr­ir hversu stórir hóp­ar þetta eru,“ seg­ir Inga Rut og bend­ir á að til að mynda í nokkrum þeirra voru um 2.000 aðilar. Hins veg­ar er hluti þeirra í mörgum hóp­um, einkum selj­end­ur. Inga Rut notaði gerviaðgang til að kom­ast inn eins og lang­flest­ir aðilanna gera. Nöfn hóp­anna eru fjöl­breytt og vísa ým­ist í er­lend­ar stór­borg­ir, ís­lensk­ar og er­lend­ar kvik­mynd­ir, dæg­ur­mál, eða beint til fíkni­efna eða fíkni­efna­notk­un­ar. 

Virkn­in í hóp­un­um var mik­il og gjarn­an eru sett­ar inn færsl­ur á tíu mín­útna fresti. Selj­end­ur voru þar í aðal­hlut­verki; að bjóða efnið sitt til sölu með aug­lýs­ing­um og virt­ist markaðssetn­ing­in vega þar þungt. Al­gengt var að fíkni­efna­sal­ar gæfu beint upp síma­núm­er sín. Á þessu tímabili sem hún skoðaði hópana fjölgaði félögum í þeim öllum um um það bil 50 til 200 manns. 

Nokkuð auðvelt aðgengi er að læknadópi á Íslandi.
Nokkuð auðvelt aðgengi er að læknadópi á Íslandi. mbl.is/Golli

Inga Rut náði fjór­um viðtöl­um við félaga hóp­anna, tvo kaup­end­ur og tvo fíkni­efna­sala. Hún sendi á 83 aðganga að Face­book beiðni um viðtal og fékk svör frá ell­efu þeirra en fjór­ir veittu viðtal. Fólkið var á aldr­in­um 21 til 35 ára og veitti viðtal ým­ist í gegn­um spjallið á Face­book eða gegn­um Face­book-sím­ann.

Fíkniefnasalar ekki sérlega varir um sig

Ann­ar fíkni­efna­sal­inn var heild­sali og var eldri, sá var mun var­ari um sig enn sá yngri. „Hann var reynslu­meiri og notaði dul­kóðuð sam­skipti,“ seg­ir Inga Rut. Hann notaði smá­for­ritið Wickr þegar hann seldi nýj­um kúnn­um en með því for­riti er ekki hægt að rekja IP-tölv­u­núm­er. Þegar hann hafði átt í reglu­leg­um sam­skipt­um við kaupendur fengu þeir síma­núm­er hans. 

Inga Rut bend­ir á að lík­lega hafi verið meira und­ir hjá hon­um því hann var heild­sali en hinn smá­sali. Yngri sal­inn gaf upp síma­núm­erið sitt og átti í ódul­kóðuðum sam­skipt­um við kaup­end­ur sína. Hvorugur hafði mikl­ar áhyggj­ur af því að lög­regl­an fylgd­ist með þeim en heild­sal­inn var meira meðvitaður um að slíkt gæti gerst, að sögn Ingu Rut­ar. Þetta viðhorf kom henni tals­vert á óvart.

Kannabis boðið til sölu á samfélagsmiðlum.
Kannabis boðið til sölu á samfélagsmiðlum.

Þess má geta að í skýrslu grein­ing­ar­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra um skipu­lagða glæp­a­starf­semi, sem var birt 25. októ­ber 2017, er lögð áhersla á að rann­sókn­ir á sölu og dreif­ingu fíkni­efna á sam­fé­lags­miðlum byggi að mestu leyti á frum­kvæði lög­reglu. Í henni kem­ur einnig fram að lög­regl­an hafi samt sem áður ekki næg­an mannafla til að sinna þess­um mála­flokki.

Í ág­úst 2016 hand­tók lög­regl­an 20 manns og lokaði 80 sölusíðum á Face­book þar sem sala fíkni­efna fór fram.

Fjölbreyttur hópur neytenda

Kaup­end­urn­ir tveir sem hún ræddi við voru ekki hrædd­ir við lög­reglu þrátt fyr­ir að þeir hafi gert sér grein fyr­ir því að þeir stunduðu ólög­legt at­hæfi með því að kaupa og neyta fíkn­i­nefna. Kaup­end­urn­ir sjálf­ir voru ekki oft sýni­leg­ir á sam­fé­lags­miðlum held­ur fylgd­ust vel með, náðu í síma­núm­er og sam­skipta­leiðir við fíkni­efna­sala.  

„Þegar þú ert bú­inn að gera þetta nógu oft finnst þér þú ekki vera að taka neina áhættu. Ég skynjaði það frá öll­um nema heild­sal­an­um,“ seg­ir Inga Rut.

Neysluskammtur af kókaíni.
Neysluskammtur af kókaíni. AFP

Kaup­end­ur fíkni­efna eru fjöl­breytt­ur hóp­ur: ung­ir, gaml­ir, þekkt­ir og óþekkt­ir, að sögn viðmæl­enda Ingu Rut­ar. „Þetta er allt venju­legt fólk sem er þarna inni sem not­ar efn­in t.d. um helg­ar, annað slagið, eða við verkj­um eins og ann­ar kaup­and­inn því ekk­ert annað gat hjálpað,“ seg­ir Inga Rut og tek­ur fram að all­ir viðmæl­end­urn­ir hafi verið opn­ir, hrein­skiln­ir og gefið henni meiri upp­lýs­ing­ar en hún óskaði eft­ir.   

Inga Rut bend­ir á að þar sem aðgengi inn í hóp­ana er nokkuð auðvelt eigi ung­ling­ar og ung­menni greiðan aðgang þangað inn. Hún velt­ir því fyr­ir sér hvort auðvelt aðgengi efn­anna og fram­setn­ing þeirra ýti und­ir að ungu fólki finn­ist þetta eðli­legt og freist­ist frek­ar til að prófa þau þar sem ríkj­andi viðhorf inn­an hóp­anna er að það sé eðli­legt að nota þau. „Mér var til dæm­is farið að finn­ast gam­an að fylgj­ast með þessu,“ seg­ir Inga Rut sem seg­ir brýnt að rann­saka þetta enn frek­ar.   

„Eng­in neyt­enda­vernd“

Eins og fyrr seg­ir er verk­efnið hluti af nor­rænu sam­starfs­verk­efni sem Dan­ir eiga frum­kvæði að. Í lok fe­brú­ar fara Inga Rut og Helgi á ráðstefnu í Kaup­manna­höfn til að kynna niður­stöðurn­ar og halda áfram með verk­efnið. Helgi bend­ir á að Dan­ir séu komn­ir lengst í að rann­saka fíkni­efna­söl­una á sam­skiptamiðlun­um. „Hóp­arn­ir í Dan­mörku eru mun opn­ari og auðveld­ara er að kom­ast inn í þá. Þar er einnig umræðan um að lög­leiða fíkni­efni kom­in lengst,“ seg­ir Helgi.

Í þessu sam­hengi bend­ir hann á að sala á fíkni­efn­um verði að kom­ast upp á yf­ir­borðið. „Þetta er líf­leg­ur sölu­markaður án eft­ir­lits og al­gjör frum­skóg­ur. Það er eng­in neyt­enda­vernd í þessu og fólk veit ekk­ert hvað er í þess­um efn­um sem það er að kaupa. Þú get­ur eng­um treyst,“ seg­ir Helgi.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor við félagsfræðideild Háskóla Íslands.
Helgi Gunnlaugsson, prófessor við félagsfræðideild Háskóla Íslands.

Það kom hon­um á óvart hversu mikið fram­boð er af hinum ýmsu fíkni­efn­um á sam­skiptamiðlum og hversu stór markaður­inn er. Hins veg­ar hafi hann haft ákveðnar hug­mynd­ir og talið söl­una á net­inu fara meira fram í tengsl­um við kanna­bis.

„Ég hef reynd­ar gert mér það að leik í fjöl­mennu nám­skeiði sem ég held að spyrja yfir hóp­inn hversu marg­ir gætu út­vegað eit­ur­lyf fyr­ir næsta partí eft­ir nokkra daga. Und­an­tekn­ing­ar­laust seg­ist ríf­lega helm­ing­ur­inn geta gert það,“ seg­ir Helgi. Hann seg­ir þetta gefa vís­bend­ingu um hversu auðvelt aðgengið sé í raun og veru.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert