Óvissustig í Ólafsfjarðarmúla

Það má búast við fjúki síðdegis á morgun.
Það má búast við fjúki síðdegis á morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Siglufjarðarvegur er enn lokaður vegna snjóflóðahættu og óvissustig gildir í Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðahættu, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Veðurspáin hefur hins vegar skánað fyrir morgundaginn.

Síðdegis á morgun má búast við snjókomu á Hellisheiði, Mosfellsheiði og Kjalarnesi. Spáð er snjókomu í Mýrdal í fyrramálið en svo fer að hlána þar. Undir Eyjafjöllum er spáð austanstormi og í hviðum fer vindhraðinn í 35-40 metra á sekúndu. Hvassast  annað kvöld en það fer að hvessa síðdegis á morgun. 

Á Suður- og Suðvesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum vegum. Hálka eða snjóþekja er á vegum á Vesturlandi. Þungfært er á Fróðárheiði. Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á Hjallahálsi og Þröskuldum. Þungfært er á Ennishálsi.

Það er hálka, snjóþekja og þæfingsfærð á vegum á Norðurlandi og éljagangur. Dettifossvegur er lokaður. Á Austurlandi er snjóþekja eða hálka á vegum og víða skafrenningur. Hálkublettir eru með suðausturströndinni en greiðfært á nokkrum köflum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert