Pólitískt val að halda fólki í fátækt

Skerðing - Ömurlegt spil fyrir alla fjölskylduna! sem Öryrkjabandalagið gaf …
Skerðing - Ömurlegt spil fyrir alla fjölskylduna! sem Öryrkjabandalagið gaf út og færði öllum alþingismönnum í jólagjöf.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), segir víða pott brotinn varðandi mál örorkulífeyrisþega. „Má þar nefna bílamál, hjálpartæki, lyfjakostnað, lækniskostnað, húsnæðiskostnað, aðgengismál, atvinnumál, NPA, sálfræðiþjónustu – sem stendur að vísu til bóta – og svo má ekki gleyma að fjölskyldur og aðstandendur þeirra sem veikjast eða fatlast vegna slyss þurfa að fá aðstoð og utanumhald til þess að þau brenni ekki upp í umönnunarhlutverki eða vegna mjög breyttra aðstæðna innan fjölskyldunnar.“

Alls eru um 30.000 manns í 41 aðildarfélagi ÖBÍ. „Á okkur sem erum í forsvari fyrir öll þessi félög standa mörg spjót þessa dagana og hefur baráttan síðustu mánuði helst snúist um NPA – notendastýrða persónulega aðstoð; að NPA verði lögfest sem eitt af helstu þjónustuformum fyrir fatlað fólk,“ segir formaðurinn.

80 þúsund krónur á mánuði

Kjör örorkulífeyrisþega eru stærsta áhyggjuefni ÖBÍ nú og hafa verið lengi. „Það má segja að það sé endurtekið efni ár eftir ár að við berjumst við að ná fram kjarabót fyrir þennan samfélagshóp. Við erum að sjá fólk sem kemur til okkar hafa í heildartekjur 80.000 kr. á mánuði, stór hópur örorkulífeyrisþega hefur undir 200.000 kr. á mánuði fyrir skatt og einhver hópur nær yfir 200.000 kr. Það eru hinsvegar ekki nema tæp 29% sem fá 300.000 kr. á mánuði og til þess að ná þeirri upphæð þarf það að búa eitt, hafa þinglýstan leigusamning eða búa í eigin húsnæði og fá heimilisuppbót. Ríflega 70% örorkulífeyrisþegar fá ekki þessa upphæð. Við náðum fram þessum 300.000 kr. milli jóla og nýárs, en það olli okkur verulegum vonbrigðum að þessi upphæð, sem miðast við lágmarkslaun, skyldi ekki ná til allra örorkulífeyrisþega. Og það er alveg ljóst að 300.000 kr. fyrir skatt duga ekki til framfærslu á Íslandi í dag,“ segir Þuríður.

„Það er með þessi mál sem við göngum til samtalsins við stjórnvöld. Það er jákvætt að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, boði til samtals og samráðs um almannatryggingarnar og aðbúnað okkar fólks.

Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur líka talað mjög skýrt og boðað byltingu í málefnum fatlaðs fólks. Þessu fögnum við og munum ekki liggja á liði okkar í því samráði og samvinnu sem framundan er. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er traustur grunnur til að byggja á. Fyrir því höfum við lengi barist. Afdráttarlaus yfirlýsing ráðherra um að þessi réttindi verði framvegis virt í orði og verki er því sérstaklega gleðileg.

Og við sitjum ekkert með hendur í skauti. Við höfum boðið þingflokkunum á Alþingi til okkar til samtals og samráðs. Við höfum nú þegar hitt þingmenn tveggja flokka, Sjálfstæðisflokks og Pírata, til að ræða um okkar brýnustu og mikilvægustu mál og skýrt fyrir þeim hvað er í húfi fyrir okkar fólk. Og það er gaman að segja frá því að við höfum fundið skýran vilja til þess að gera miklu betur í þessum málum en hingað til.“

Þuríður segir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks mjög mikilvægan fyrir fatlaða en margir skilji ekki út á hvað hann gengur.

Nánar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands. mbl.is/Hari
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert