Þarf að greiða alla skuldina

Hæstiréttur breytti niðurstöðu héraðsdóms og féllst ekki á að fella …
Hæstiréttur breytti niðurstöðu héraðsdóms og féllst ekki á að fella niður hluta skuldar starfsmanns Landsbankans við ríkið. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur sneri í vikunni við úrskurði héraðsdóms um að lækka skuld fyrrverandi starfsmanns eiginfjárfestinga Landsbankans sem hlaut níu mánaða dóm í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans í febrúar árið 2016. Var manninum gert að greiða 22,6 milljónir í málsvarnarlaun og málskostnað.

Ríkissjóður greiddi málsvarnarlaun hans eins og tíðkast í sakamálum, en gerði svo endurkröfu á manninn sem heitir Sindri Sveinsson. Fór hann fram á að upphæðin yrði lækkuð niður í 2 milljónir.

Eftir að dómur féll í málinu hóf ríkissjóður innheimtu á skuldinni, en maðurinn óskaði eftir því að greiða 2 milljónir og eftirstöðvarnar yrðu felldar niður. Erindinu fylgdu bankaupplýsingar hans og svo lánsloforð upp á 2 milljónir frá viðskiptabanka hans með því skilyrði að skuldin yrði felld niður samhliða greiðslunni.

Var Sindra svarað og boðið að greiða 100 þúsund krónur á mánuði í eitt ár og að því loknu yrði málið endurskoðað. Hafnaði hann því og fór með málið fyrir dóm.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að fella aðfarargerðina úr gildi og lagt yrði fyrir sýslumann að framkvæma aðeins fjárnám til tryggingar greiðslu upp á 2 milljónir.

Hæstiréttur sneri þessari niðurstöðu hins vegar við og vísaði til þess að maðurinn hefði ásamt eiginkonu sinni keypt fasteign árið 2008 sem væri metin á tæpar 60 milljónir. Aftur á móti hefðu þau gert með sér kaupmála tveimur mánuðum eftir að maðurinn var ákærður af embætti sérstaks saksóknara um að konan yrði einn eigandi eignarinnar. Maðurinn var engu að síður áfram meðskuldari á fasteignaláni.

Maðurinn starfaði hjá eiginfjárfestingum Landsbankans og var árið 2016 dæmdur …
Maðurinn starfaði hjá eiginfjárfestingum Landsbankans og var árið 2016 dæmdur fyrir þátt sinn í markaðsmisnotkunarmáli hans. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Segir í dómi Hæstaréttar að ríkissjóður hafi vegna þessa getað freistað þess að leita fullnustu með fjárnámi í hluta fasteignarinnar sem hefði án kaupmálans verið í eigu Sindra. Þá telur Hæstiréttur að tekjur hans undanfarin ár verið talsverðar, en þær voru að meðaltali frá árinu 2007 um 9,3 milljónir á ári.

„Að þessu gættu hefur ekki verið leitt í ljós að fjárhagur hans sé með því móti að falla beri frá kröfu á hendur honum um greiðslu sakarkostnaðarins. Eru því ekki efni til að taka til greina kröfu hans um að fjárnáminu verði breytt,“ segir í niðurstöðu Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert