Þörf á betri stuðningi við þolendur

Embla Kristínardóttir þurfti að þola mikla gagnrýni eftir að hún …
Embla Kristínardóttir þurfti að þola mikla gagnrýni eftir að hún sagði frá því að sér hefði verið nauðgað, einungis 13 ára gamalli.

„Mér finnst vera vöntun á betri stuðningi við unga krakka sem lenda í þeim aðstæðum sem ég lenti í,“ segir Embla Kristínardóttir, sem steig fram í viðtali við RÚV í fyrrakvöld og sagði frá því þegar fullorðinn afreksmaður í frjálsum íþróttum nauðgaði henni. Hún var einungis 13 ára gömul þegar atvikið átti sér stað og hann var um tvítugt. Hlaut hann fimm ára skilorðsbundinn dóm fyrir kynferðisbrot gegn barni.

Í fyrrnefndu viðtali lýsti Embla því hvernig heimabær hennar, Keflavík, hefði verið klofinn vegna málsins en gerandinn er ættaður úr Keflavík.

Embla segir við Morgunblaðið að þrátt fyrir óyggjandi sannanir hafi hún þurft að þola það að fólk tæki afstöðu með gerandanum.

„Ég var með sönnunargögn, t.d. smáskilaboð þar sem hann hótaði mér öllu illu ef ég segði frá auk þess sem ég gat lýst íbúðinni með nákvæmum hætti að innan og allar dagsetningar pössuðu. Samt sem áður segist hann aldrei hafa talað við mig né hitt mig,“ segir Embla.

„Átti bara að hegða mér vel“

Embla gagnrýnir hversu litla aðstoð þolendur kynferðisbrota fá þegar slík mál koma upp, í hennar tilviki hafi ýmsu verið ábótavant.

„Ég fór í nokkur viðtöl, það var allt og sumt. Ég átti bara að vera komin yfir þetta. Mér var aldrei boðinn flutningur á milli skóla, íþróttafélaga eða bæjarfélaga. Ég átti bara að hegða mér vel og vera ánægð með að hann skyldi vera dæmdur í 5 ára skilorðsbundið fangelsi,“ segir Embla og bætir við að hún vonist til þess að í kjölfar umræðunnar muni skólar vekja athygli á því að stuðningur sé til staðar, þar sem krökkum er boðið að leita sér aðstoðar hjá fagaðilum.

Þó að dómur félli í máli Emblu þá aðhafðist íþróttafélag mannsins ekkert í málinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert