8-10 vikna bið eftir dagvistun í Hafnarfirði

Tveir dagforeldrar hefja störf í Hafnarfirði 1. mars.
Tveir dagforeldrar hefja störf í Hafnarfirði 1. mars. mbl.is/Ómar Óskarsson

Biðtími eftir dagvistunarplássi fyrir yngstu börn í Hafnarfirði er á bilinu 8-10 vikur samkvæmt þeim biðlista sem eru upplýsingar um hjá daggæslufulltrúa Hafnarfjarðar. Þetta segir Einar Bárðarson, samskiptastjóri Hafnarfjarðar. Sex börn eru á biðlistanum. Þann 1. mars hefja tveir dagforeldrar störf í Hafnarfirði og opnast þar sjö pláss.

Í frétt sem birtist á mbl.is fyrr í dag segir af móður sem ráðlagt var að hefja störf á leik­skóla í bæn­um því þannig fengi barn henn­ar for­gang í leik­skóla­pláss.

Í samtali við mbl.is segir Einar að umræddri konu hafi verið boðið starf á leikskóla bæjarins þar sem hún hafi sagst vera í atvinnuleit og þegar búin að sækja um á öðrum leikskólum, sem ekki voru í umsjá Hafnarfjarðarbæjar.

Því hafi henni verið boðið starf á leikskóla bæjarins en starfsmenn hafa forgang í laus pláss á leikskólum bæjarins. Í bréfinu, sem mbl.is hefur undir höndum, segir einnig að barnið komist í seinasta lagi til dagforeldra 1. mars þegar hinir nýju dagforeldrar taka til starfa. 

Einar áréttar að enn sé leitast við að koma barninu fyrr að hjá dagforeldri í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert