Ákvörðun um framboð tekin fljótlega

Sósíalistaþing fór fram í gær en sósíalistaþing er aðalfundur Sósíalistaflokks …
Sósíalistaþing fór fram í gær en sósíalistaþing er aðalfundur Sósíalistaflokks Íslands.

Á þingi  Sósíalistaflokksins í gær var rætt um mögulegt framboð flokksins til sveitarstjórna í vor. Mikill fjöldi fundarmanna tók til máls á fundinum, segir í frétt á vef flokksins.

Þingið nú markar lok stofnunar flokksins, en efnt var til stofnunar hans 1. maí síðastliðinn, fyrir tæpum níu mánuðum. Á þinginu voru samþykkt ný lög og nýtt skipulagsfundur.

„Margir vildu bjóða fram og töldu flokkinn eiga brýnt erindi í sveitarstjórnir, sem færu með mörg mikilvæg hagsmunamál launafólks og almennings. Aðrir vildu að flokkurinn legði áherslu á verkalýðsfélög og önnur almannasamtök á næstu mánuðum og óttuðust að framboð myndu dreifa kröftum og athygli. Enn aðrir vor beggja blands. Fjölmörg sjónarmið voru reifuð um erindi sósíalista, baráttuaðferðir, áherslur og möguleika til áhrifa.

Sósíalistaþing fól framkvæmdastjórn að ýta undir umræður flokksmanna um framboð, sækja sjónarmið sem flestra og boða fljótlega til félagsfundar þar sem ákvörðun yrði tekin um framboð til sveitarstjórna,“ segir á vef flokksins.

Á Sósíalistaþingi var kosið í þrjár stjórnir Sósíalistaflokksins; í málefna- félaga- og framkvæmdastjórnir, alls 39 manns.

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn ábyrgist daglegan rekstur flokksins, hefur umsjón með heimasíðu og kynningarmálum, sér um fjármál flokksins, heldur utan um félagaskrá og skal safna saman fundargerðum og öðrum heimildum um ákvarðanir og starfsemi flokksins milli aðalfunda. Hana skipa: Ásgerður Jóhannsdóttir, Birna Eik Benediktsdóttir, Gísli Pálsson, Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, Gunnar Smári Egilsson, Hákon Sveinsson, Margrét Pétursdóttir, Sanna Magðalena Mörtudóttir og Viðar Þorsteinsson og til vara: Jón Bragi Pálsson, Katrín Baldursdóttir, Laufey Ólafsdóttir og Valdimar Andersen Arnþórsson.

Félagastjórn

Félagastjórn starfrækir „sellur“ sem félagsmenn á tilteknu búsetusvæði tilheyra sjálfkrafa. Félagastjórn virkjar, styður og mótar starf sellanna eftir atvikum. Félagastjórn skipa: Amy Clifton, Arnþór Sigurðsson, Ásta Dís, Guðbjörg Pálsdóttir, Guðmundur Arngrímsson, Luciano Dutra, Oddný Margrét Stefánsdóttir, Sólveig Anna Jónsdóttir og Þórður Alli Aðalbjörnsson og til vara: Ásdís Helga Jóhannesdóttir, Anna Þórsdóttir, Benjamín Júlían og Guðbergur Egill Eyjólfsson.

Málefnastjórn

Til að styðja við stefnumótun flokksins starfar málefnastjórn, en hún annast framkvæmd stefnumótunarvinnu á milli sósíalistaþinga og í umboði þess. Málefnastjórn skipar slembivalda hópa félagsmanna sem vinna stefnudrög í einstökum málaflokkum. Málefnastjórn skipa: Anton Jóhannesson, Bogi Reynisson, Hallfríður Þórarinsdóttir, Haukur Arnþórsson, María Pétursdóttir, Sigríður Fossberg Thorlacius, Sigurður H. Einarsson, Símon Vestarr og Sylviane Lecoultre og til vara: Ása Lind Finnbogadóttir, Friðrik Boði Ólafsson, Guttormur Þorsteinsson og Þorvar Hafsteinsson.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert