Mikil spenna og smá stress á Sundance

Kristín Þóra Haraldsdóttir og Patrik Nökkvi Pétursson í hlutverkum sínum …
Kristín Þóra Haraldsdóttir og Patrik Nökkvi Pétursson í hlutverkum sínum í myndinni. Ljósmynd/Ita Zbroniec-Zajt

„Þetta er stórt skref og mikill heiður,“ segir Ísold Uggadóttir. Fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd, Andið eðlilega, keppir til aðalverðlauna á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Park City í Bandaríkjunum á morgun.

Sérstök fjölmiðlasýning myndarinnar var á föstudag og í kjölfarið á henni var birtur lofsamlegur dómur á síðunni Screendaily þar sem myndinni er líkt við kvikmyndir virtra kvikmyndahöfunda á borð Dardenne-bræður og hinn breska raunsæisleikstjóra Ken Loach sem tvívegis hefur hlotið Gullpálmann.

Að mati blaðamanns Screendaily er myndin hjartnæm og áhrifarík og leikstjórn einkennist af miklu öryggi og innsæi. Sérstaklega er minnst á náttúrulegan og áreynslulausan leik hjá leikurum myndarinnar.  

Ísold, Patrick og Babetida Sa­djo slá á létta strengi á …
Ísold, Patrick og Babetida Sa­djo slá á létta strengi á tökustað. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

Opinber heimsfrumsýning er á morgun, mánudag, en þá verður mikið um að vera hjá leikstjóra og leikhópnum sem verða í viðtölum og myndatökum fram að sýningu. Það er óneitanleg spenna í hópnum, en ásamt Ísold eru á staðnum framleiðendur og aðalleikararnir þrír, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Babetida Sadjo og Patrik Nökkvi Pétursson, ásamt föruneyti. 

Vill að fólk upplifi myndina

Andið eðli­lega fjall­ar um hæl­is­leit­and­ann Adja frá Gín­eu-Bis­sá sem belg­íska leik­kon­an Babetida Sa­djo leik­ur og hvernig ör­lög henn­ar flétt­ast sam­an við ör­lög ís­lenskr­ar konu, Láru, sem Krist­ín Þóra Haraldsdóttir leik­ur. Leiðir þeirra liggja sam­an við vega­bréfa­skoðun á Kefla­vík­ur­flug­velli þar sem Adja er stöðvuð í vega­bréfa­eft­ir­liti af Láru, sem hef­ur nýhafið störf á Kefla­vík­ur­flug­velli. Þær tengj­ast óvænt­um bönd­um en með stórt hlut­verk fer líka Pat­rik Nökkvi Pét­urs­son, sem leik­ur ung­an son Láru. 

Frá tökum.
Frá tökum. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

„Þetta er realísk og dramatísk saga um konur í samtímanum sem bindast óvæntum böndum,“ segir Ísold en hún vill ekki gefa of mikið upp um söguþráðinn. „Ég vil leyfa fólki að upplifa myndina, ekki bara lesa um hana.“

Ísold segir að það sé einstök tilfinning að fyrsti dómurinn sem birtist um myndina sé sterkur. „Það breytir öllu. Það er mjög ánægjulegt að skynja að verkinu manns sé vel tekið.“

Myndin var tekin upp á Suðurnesjum.
Myndin var tekin upp á Suðurnesjum. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

Tólf myndir voru valdar í flokkinn sem Andið eðlilega keppir í; World Cinema Dramatic Competion. „Hátt í fimm þúsund sækja um að taka þátt hverju sinni og alltaf hörð barátta um að verða einn hinna útvöldu. Það var því ólýsanleg tilfinning að komast að og breytir miklu fyrir framhald myndarinnar,“ segir Ísold  og bætir við að ef myndin fái góða dóma á hátíðinni opnist fleiri dyr:

„Það kemur í ljós hvort hún verði seld og rati í kvikmyndahús víða um heim í kjölfar hátíðarinnar. Það er auðvitað markmið okkar og að myndin verði sýnd sem víðast. Þegar Sundance lýkur förum við á aðalkeppnina á Gautaborgar-hátíðinni en þangað var okkur boðið að keppa um hin eftirsóttu Drekaverðlaun sem veitt eru fyrir bestu norrænu myndina.

Ísold og Babetida Sa­djo njóta lífsins um helgina á Sundance-hátíðinni.
Ísold og Babetida Sa­djo njóta lífsins um helgina á Sundance-hátíðinni. Ljósmynd/Þórdís Claessen

Reynir að njóta í stressinu

Spurð hvort henni líði eins og stjörnu á hátíðarhelginni segir Ísold að það sé kannski hægt að segja að henni líði eins og lítilli stjörnu. Þó er að mörgu að huga og því lítill tími til að velta sér upp úr því.

„Það er mikið stress að sýna myndina eftir langan aðdraganda en þetta er mjög gaman,“ segir Ísold en Andið eðlilega verður frumsýnd á Íslandi í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert