Krefjast úrbóta í dagvistunarmálum

Haraldur Jónasson / Hari

Bið eftir leikskólaplássi er vandamál sem margir foreldrar kannast við þegar fæðingarorlofinu sleppir. Á dögunum var stofnaður á Facebook-umræðuhópur fyrir foreldra í þessari stöðu, og á örfáum dögum eru meðlimir komnir yfir þúsund.

Í hópnum deila meðlimir meðal annars reynslusögum af samskiptum sínum við sveitarstjórnir. Ein móðir segist til að mynda hafa fundað með bæjarstjóra og fulltrúa þjónustusviðs Hafnarfjarðar. Henni var ráðlagt að hefja störf á leikskóla í bænum því þannig fengi barn hennar forgang í leikskólapláss. Að vísu ekki fyrr en eftir hálft ár. Annarri var bent á að gerast dagmamma.

Í hópnum er einnig að finna samanburð frá nágrannalöndum. Laufey Ýr Hákonardóttir lýsir reynslu sinni af því að fá daggæslu í Álaborg í Danmörku. Þar þurfi einfaldlega að fylla út skjal á heimasíðu bæjarins og viðeigandi pláss fyrir barnið sé fundið. Þótt ekki sé hægt að koma til móts við allar óskir um val á staðsetningu megi ganga út frá að fá inni einhvers staðar.

Á Íslandi geti hins vegar liðið mánuðir frá því fæðingarorlofi lýkur og barn kemst að á leikskóla. Þetta bil reyni sumir að brúa með dagforeldrum, en þeir eru af skornum skammti og neyðast margir til að taka sér launalaust leyfi úr vinnu um tíma.

Það er von aðstandenda hópsins að sögur sem þessar verði til þess að úrbætur verði gerðar á dagvistunarmálum sveitarfélaganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert