Austanhvassviðri og úrkoma

Veðrið fyrri hluta vikunnar er nógu slæmt til að geta …
Veðrið fyrri hluta vikunnar er nógu slæmt til að geta haft truflandi áhrif á ýmsar athafnir, til dæmis ferðalög milli landshluta, segir í hugleiðingum veðurfræðings. Af Facebook

Spáð er austan hvassviðri eða stormi með úrkomu á suðurhelmingi landsins í dag og eins hvessir með ofankomu á Norðurlandi í kvöld. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Eftir hádegi í dag má búast við austan hvassviðri eða stormi á suðurhelmingi landsins, hvassast allra syðst. Úrkomusvæði gengur betur inn á land eftir því sem líður á daginn og úr því kemur rigning eða slydda á láglendi, en snjókoma á heiðum. Fram eftir degi verður vindur heldur hægari norðanlands og úrkomulítið þar, en það hvessir einnig á þeim slóðum í kvöld og nótt með ofankomu. 

Stund milli stríða

Áfram er útlit fyrir hvassa austanátt á morgun og slyddu eða snjókomu. Mun hægari vindur og úrkomulítið sunnan- og suðvestanlands og er það stund milli stríða á þeim landsvæðum. 

Á miðvikudag er síðan útlit fyrir að vindur hafi snúist til norðlægari áttar. Þá er gert ráð fyrir norðaustan hvassviðri eða stormi og nær sá vindur til alls landsins. Snjókoman á miðvikudaginn verður hins vegar nær eingöngu bundin við norðan- og austanvert landið og gæti orðið nokkuð þétt þegar verst lætur. 

Veðrið fyrri hluta vikunnar er nógu slæmt til að geta haft truflandi áhrif á ýmsar athafnir, til dæmis ferðalög milli landshluta.

„Við erum nú stödd á þeim árstíma þar sem illviðri eru að jafnaði tíðust á Íslandi. Mögulega er það hughreystandi fyrir einhverja að veðrið getur hæglega orðið mun verra en útlit er fyrir fyrripart vikunnar sem nú er að hefjast. 

Útlit er fyrir batnandi veður á fimmtudag, þegar norðanáttin og ofankoman minnkar, en þá kólnar í veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Austan 15-25 m/s eftir hádegi, hvassast syðst á landinu. Rigning eða slydda, en snjókoma á heiðum. Hægari og úrkomulítið norðanlands, en hvessir einnig þar með snjókomu í kvöld. 
Hlýnar heldur í veðri, hiti ofan frostmarks á láglendi sunnan til síðdegis og minnkandi frost um landið norðanvert.

Áfram hvöss austanátt á morgun og slydda eða snjókoma, en mun hægari vindur og úrkomulítið sunnan- og suðvestanlands.

Á þriðjudag:

Austan 13-20 m/s og slydda eða snjókoma, en mun hægari vindur og úrkomulítið sunnan- og suðvestanlands. Hiti kringum frostmark. Norðaustlægari og bætir heldur í vind um kvöldið og þá talsverð snjókoma í norðausturfjórðungi landsins. 

Á miðvikudag:

Norðaustan 15-23 m/s. Þurrt að kalla sunnan- og suðvestanlands, annars snjókoma eða slydda, talsverð á Austurlandi. Hiti áfram nálægt frostmarki. 

Á fimmtudag:

Minnkandi norðanátt og víða léttskýjað S- og V-lands, en dálítil él á N- og A-landi. Kólnandi veður. 

Á föstudag:
Suðaustanátt og dálítil snjókoma sunnan- og vestanlands, annars skýjað og þurrt. Frost 0 til 12 stig, kaldast á Norðausturlandi. 

Á laugardag og sunnudag:
Breytileg vindátt, úrkoma í flestum landshlutum og hiti kringum frostmark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert