Nefndarmenn fengu gögnin fyrir helgi

Húsnæði Landsréttar í Kópavogi.
Húsnæði Landsréttar í Kópavogi. mbl.is/RAX

Gögn frá dómsmálaráðuneytinu í tengslum við Landsréttarmálið, sem óskað hafði verið eftir, bárust stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fyrir helgi. Þetta staðfestir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

Eins og fréttavefurinn greindi frá í síðustu viku var beðið eftir þeim gögnum. Gögnunum var í kjölfarið dreift til fundarmanna og stóð til að funda um málið áfram í morgun en fundinum var hins vegar aflýst þar sem ljóst var að hann myndi skarast á við sameiginlegan #metoo-morgunverðarfund stjórnmálaflokkanna sem fram fór í morgun.

Frétt mbl.is: Sérfræðingar vöruðu Sigríði við

„Þetta var óhemjumagn og ég veit ekki hvort einhver hefur náð að lesa þetta yfir helgina,“ segir Helga Vala. Fréttavefur Stundarinnar fjallaði í morgun um gögn úr ráðuneytinu í tengslum við Landsréttarmálið þar sem meðal annars er greint frá tölvupóstsamskiptum innan ráðuneytisins á milli starfsmanna ráðuneytisins.

Spurð hvort þau gögn sem Stundin segist hafa undir höndum í þessum efnum séu þau sömu og nefndin fékk afhent fyrir helgi segist Helga Vala ekki getað tjá sig um það. Spurð hvaða gögnum nefndin hafi óskað eftir segir hún að það hafa náð til allra gagna sem tengist afgreiðslu ráðuneytisins á málinu. Þar á meðal samskipti.

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. Ljósmynd/Samfylkingin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert