Fyrsta málefnaþing Uppreisnar

Frá fyrsta málefnaþingi Uppreisnar.
Frá fyrsta málefnaþingi Uppreisnar. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta málefnaþing Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, var haldið á laugardaginn. Hátt í þrjátíu Uppreisnarliðar hvaðanæva af landinu komu saman og mótuðu stefnu í fjölda málaflokka.

„Ályktanirnar voru fjölbreyttar, allt frá stuðningi við borgarlínu og til lögleiðingar veðmála. Tekin var afstaða til ýmissa frelsismála svo sem dánaraðstoðar, leigubílamarkaðsins og áfengissölu,“ segir í tilkynningu.

Þar segir að málefni námsfólks hafi verið höfð í öndvegi. Uppreisn ályktaði um bætta sálfræðiþjónustu á háskólastigi, hærri fæðingarstyrk námsfólks og breytingu á styrkveitingu LÍN.

Kerfisbreytingar á borð við aðskilnað ríkis og kirkju og fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu voru einnig  tekin fyrir, rétt eins og hinsegin fræðsla og leikskólamál. Að þingi loknu voru Uppreisnarverðlaunin veitt í fyrsta sinn. Samþykktar ályktanir er hægt að lesa í heild sinni á vefsíðu Uppreisnar.

Þann 3. febrúar mun Uppreisn færa út kvíarnar og stofna fyrsta aðildarfélagið, Reykjavíkurfélag Uppreisnar, sem mun annast málefnastarf og framboð ungs fólk í borgarstjórnarkosningunum í vor fyrir hönd Viðreisnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert