Sérfræðingar vöruðu Sigríði við

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Sérfræðingar í dóms- og fjármálaráðuneytinu vöruðu Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra við því að ef hún ætlaði að breyta út af lista hæfnisnefndar um dómara við Landsrétt þyrfti hún að leggja sjálfstætt mat á alla umsækjendur.

Starfsmenn ráðuneytisins höfðu áhyggjur af því að hún léti athugasemdir þeirra sem vind um eyru þjóta en degi síðar lagði Sigríður til fjórar breytingar á lista hæfnisnefndar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun Stundarinnar. Þar er fjallað um samskipti ráðherra við starfsfólk í ráðuneytinu í aðdragandanum að því að Sigríður gerði fjórar breytingar á tillögum um dómara við Landsrétt í lok maí. Eins og áður hefur komið fram kom nefndin með 15 dómaratillögur en ráðherra gerði fjórar breytingar.

Ríkið hefur verið dæmt til að greiða tveimur af þeim fjórum dómurum sem skipt var út, Ástráði Har­alds­syni og Jó­hann­esi Rún­ari Jó­hanns­syni, samtals 1,4 milljónir í miskabætur vegna ákvörðunar ráðherra.

Ástráður Haraldsson og Jó­hann­es­ Rún­ar Jó­hanns­son­.
Ástráður Haraldsson og Jó­hann­es­ Rún­ar Jó­hanns­son­. Samsett mynd

Auk þess hafa Eiríkur Jónsson lagaprófessor og Jón Höskuldsson héraðsdómari krafist bóta. Jón fer fram á 30 milljónir króna í miska- og skaðabætur en upphæð fylgdi ekki kröfu Eiríks.

Listi hæfnisnefndar var tilbúinn um miðjan maí í fyrra en í framhaldi af því skrifar Helgi Valberg Jensson, sérfræðingur hjá kjara- og mannauðssýlu fjármálaráðuneytisins, bréf til Ragnhildar Arnljótsdóttur, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, Ernu Sigríðar Sigurðardóttur, lögfræðings hjá forsætisráðuneytinu, og Snædísar Óskar Sigurjónsdóttur, lögfræðings hjá dómsmálaráðuneytinu.

„Ef ráðherra ætlar að leggja þetta breytt fyrir þingið, þá þarf ráðherra að leggja sjálfstætt mat á alla umsækjendur, út frá þeim sjónarmiðum sem hún leggur til grundvallar. Í því gæti falist að kalla eftir upplýsingum frá öllum umsækjendum, auk þess að upplýsa þá,“ segir í bréfi Helga.

Sigríður gerði, eins og áður segir, fjórar breytingar og sendi uppkast að bréfi til Alþingis til Helga og Snædísar og fékk athugasemdir til baka frá þeim:

Aðalábendingin lítur [sic] að því að ef það á að taka einhverja út af lista dómnefndar og setja aðra inn, þá þarf að rökstyðja það sérstaklega með vísan til hæfni þeirra og starfsferils,“ sagði í svarinu. Ráðherra brást ekki við því og sendi Alþingi bréfið án þess að bæta neinu við.

Nánar er fjallað um málið í Stundinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert