„Við erum að tala um skelfingu“

Inga Sæland á Alþingi.
Inga Sæland á Alþingi. mbl.is/​Hari

„Það ríkir ógnarástand úti í samfélaginu í dag,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í leiðtogaumræðum á Alþingi.

Þar átti hún við fíkniefnavandann sem hún sagði fara vaxandi og fjölda einstaklinga sem svipti sig lífi vegna hans.

Hún sagði málið snúast um ópíumskyld lyf sem unga fólkið noti til að sprauta sig í æð og kallaði eftir starfshópi sem myndi taka saman skýrslu um þá sem leiðast út í þessar ógöngur.

„Við erum að tala um framtíðina. Við erum að tala um börnin okkar. Við erum að tala um skelfingu,“ sagði hún og fór fram á að ríkisstjórnin setti aukið fjármagn í málaflokkinn.

„Við eigum að skera upp herör gegn þessari ömurlegu vá sem fíkniefnavandinn er í dag,“ sagði hún en taldi mikilvægt að refsivæða ekki. „Við eigum að taka utan um fólkið og hjálpa því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert