Allir farþegar á leið til byggða

Vetrarveður er fyrir norðan.
Vetrarveður er fyrir norðan. mbl.is/Rax

Allir farþegar í tæplega 10 bílum sem voru fastir í Möðrudalsöræfum í kvöld eru á leið til byggða. Björgunarsveitir ferja fólkið til byggða en nokkrir bílar voru skildir eftir á heiðinni. 

„Það er leiðindaveður, hvasst og mikið myrkur. Þarna er eins dimmt og það getur orðið því engin ljósmengun er þarna og skyggni því lítið,“ segir Jónas Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.  

Um 10 til 20 manns í björgunarsveitunum tóku þátt í aðgerðunum. Reiknað er með að fólkið komi til  byggða milli kl. 12 og eitt í nótt. 

Vegirnir um Öxnadalsheiði, Víkurskarð Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði eru lokaðir. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar

Snjóflóðahætta á Austfjörðum

Spáin fyrir Austfirði hefur versnað í kvöld. Þar er nú reiknað með umtalsverðri snjókomu og miklu hríðarveðri, einkum á fjallvegunum. Vakin er athygli á snjóflóðahættu til fjalla á Austfjörðum. Einnig snjóar samfara allhvössum vindi norðaustanlands allt vestur í Eyjafjörð og á Öxnadalsheiði, segir enn fremur á vef Vegagerðarinnar.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert