Andið eðlilega vel tekið á Sundance

Ísold Uggadóttir ræðir við fjölmiðla á Sundance.
Ísold Uggadóttir ræðir við fjölmiðla á Sundance. Ljós­mynd/​Lilja Jóns­dótt­ir

Kvikmynd Ísoldar Uggadóttur, Andið eðlilega, var heimsfrumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni í gærkvöldi. Troðfullt var á sýninguna og samkvæmt aðstandendum myndarinnar var henni afar vel tekið.

Ísold, aðalleikarar og framleiðandi myndarinnar ræddu við áhorfendur og svöruðu spurningum úr sal að sýningu lokinni. Krist­ín Þóra Har­alds­dótt­ir, Pat­rik Nökkvi Pét­urs­son og Babetida Sa­djo eru í aðalhlutverkum.

Ísold, Patrick og Babetida Sa­djo á tökustað.
Ísold, Patrick og Babetida Sa­djo á tökustað. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

Andið eðli­lega fjall­ar um hæl­is­leit­and­ann Adja frá Gín­eu-Bis­sá sem belg­íska leik­kon­an Babetida Sa­djo leik­ur og hvernig ör­lög henn­ar flétt­ast sam­an við ör­lög ís­lenskr­ar konu, Láru, sem Krist­ín Þóra Har­alds­dótt­ir leik­ur. Leiðir þeirra liggja sam­an við vega­bréfa­skoðun á Kefla­vík­ur­flug­velli þar sem Adja er stöðvuð í vega­bréfa­eft­ir­liti af Láru, sem hef­ur nýhafið störf á Kefla­vík­ur­flug­velli. Þær tengj­ast óvænt­um bönd­um en með stórt hlut­verk fer líka Pat­rik Nökkvi Pét­urs­son, sem leik­ur ung­an son Láru. 

Myndin er fyrsta mynd Ísoldar í fullri lengd og hefur hún hlotið góða dóma. 

Ísold fyrir frumsýningu.
Ísold fyrir frumsýningu. AFP

Segir í dómi Variety að leikarar túlki hlutverk sín vel og að myndin sé dramatísk og raunsæ. Í dómi Screen Daily segir meðal annars að Andið eðlilega „standi fyllilega undir þeim væntingum sem gerðar hafi verið til Ísoldar vegna margverðlaunaðra stuttmynda hennar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert