Ekki í leikfimi af ótta við myndatökur

Brynhildur Björnsdóttir og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir.
Brynhildur Björnsdóttir og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. Haraldur Jónasson/Hari

Þær Brynhildur Björnsdóttir og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hafa síðustu árin orðið nánar vinkonur og samstarfsfélagar. Saman hafa þær brallað ýmislegt, unnið stuttmyndir og verið baráttukonur gegn kynbundnu ofbeldi í skrifum, á skjánum og víðar. Þær hafa einnig brunnið fyrir að fræða unga fólkið okkar og nú er það þriðja fræðslumyndin úr þeirra smiðju sem var frumsýnd í síðustu viku, Myndin af mér, sem fjallar um kynferðisofbeldi sem þrífst í netheimum, meðal annars þegar nektarmyndir, sem sendar eru í trúnaði, fara á flakk. Blaðamaður Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins hitti þær Brynhildi og Þórdísi Elvu yfir kaffibolla og þær komu sér fyrir í sófanum heima hjá Brynhildi þar sem ótal plott þeirra stallna hafa orðið til og þær spjölluðu meðal annars um myndina en viðtalið má lesa í heild í Sunnudagsblaði morgunblaðsins. 

Hvað vakir helst fyrir ykkur, með því sem þið hafið verið að gera?

Brynhildur: „Auðvitað að koma í veg fyrir andstyggilegt ofbeldi. Fræðsla er besta forvörnin. En mér hefur líka fundist að ungt fólk sé snuðað um það að fá að sjá kynlíf sem fallegt, gott, fyndið og jákvæða uppsprettu samskipta. Klámvæðing og keppnisvæðing kynlífs, þar sem þú átt að hafa verið með mörgum og hafa prófað rosalega fjölbreytta hluti hefur allt of mikið vægi. Einnig er svo mikilvægt að gefa gerendum, sem í langflestum eru ungir karlmenn, aðra valkosti til móts við þennan ofboðslega keppnisþrýsting frá umhverfinu, að þurfa að prófa allt.“

Þórdís Elva: „Þeir sjái að karlmennska snúist ekki um kynferðislega ávinninga.“

Brynhildur: „Að gefa þeim valkosti þannig að það sé einhver sem segi við þá: Nei, þetta þarf ekki að vera svona. Þú þarft ekki alltaf að stökkva til ef einhver stúlka er meðvitundarlaus inni í tjaldi eða herbergi, þú getur verið sá sem segir: Heyrðu, þetta er ekki í lagi. Það að reyna að gefa þann valkost í aðstæðum sem maður veit að geta komið upp – að velja að beita ekki kynferðislegu ofbeldi, eins fáránlega og það hljómar þegar maður segir það upphátt.“

Þórdís: „Þetta sem Brynhildur nefnir með jákvæðu hliðar kynlífs þá verður að vera gaman í myndunum okkar, kynlíf er skemmtilegt og fallegt. Við vildum líka passa að fræðslan yrði ekki þung og klínísk eins og kynfræðsla er stundum og þrungin skömm þar sem fókuserað er á það sem fer úrskeiðis eins og ótímabærar þunganir og kynsjúkdóma. Við vildum líka sýna að netsamskipti geta verið ofboðslega rómantísk en um leið og traust er brotið þá snýst það upp í andhverfu sína. Flestöll ungmenni fá sína kynfræðslu í gegnum klám. Því hefur ekki verið veitt nægilegt mótvægi með góðri kynfræðslu. 25 milljón klámsíður eru aðgengilegar allan sólarhringinn og börn niður í 10 ára, eða yngri, eru með snjalltæki. Kynfræðsla þarf að vera svo miklu róttækari og meiri til að geta haldið í við þessa þróun. Mig langaði til að reyna að leiðrétta það sem mér finnst vera algengustu ranghugmyndirnar og valdefla krakka sem hefur verið brotið á eða eru í vafa. Ég klökkna þegar ég tala um það en ég hef fengið það staðfest frá fleiri en einum starfsmanni í Barnahúsi að það hafi orðið breyting eftir að fyrsta myndin, Fáðu já!, kom út. Nýir hópar af krökkum hafa komið sem skildu allt í einu að það hafði verið brotið á þeim. Það skiptir mig meira máli en nokkur viðurkenning eða verðlaunagripur sem verkefni okkar hafa uppskorið.“

Brynhildur: „Eftir að Fáðu já var sýnd nemendum í 9. bekk var könnun lögð fyrir þau og þau spurð hvort það væri auðveldara að tala um kynlíf almennt og við foreldra sína og þar svaraði meirihluti já, þarna varð til einhver einlægur umræðugrundvöllur.“

Er miklu, miklu meira að varast í dag heldur en þegar þið voruð ungar?

Brynhildur: „Krakkar eru ekki verri, möguleikarnir til að skaðast eða valda skaða eru bara miklu meiri.“

Þórdís Elva: „Þegar við vorum að alast upp var ekkert til á netinu sem hét „double anal fisting“. Maður hafði ekki ímyndunarafl í það sem börn geta séð í dag með einum smelli á músinni. Þegar mjög ung börn eru komin með snjalltæki, með innbyggða myndavél og nettengd, þarf svo lítið til að mynd sé tekin og hún fari á flakk. Börn eru hvatvís, það er hluti af æskunni, og þau hafa minni getu til að hugsa fyrir afleiðingum. Mér finnst mikilvægt að þessi umræða eigi sér stað meðal fullorðinna, um möguleika snjalltækja og hvað er að gerast í kynferðislegum samskiptum meðal barna og hvað ein ljósmynd getur haft mikið að segja.“

Brynhildur: „Einu sinni var mikil umræða um að heimilistölva ætti að vera í „almennu rými“ svo foreldrar gætu fylgst með hvaða síður börnin væru að heimsækja á netinu. En svo láta þessir sömu foreldrar börnin sín fá snjallsíma, þar sem þau geta setið úti á róló og gert alls konar hluti á símann sem þau hafa alls ekki aldur til. Ég hef rætt það við foreldra sem ég hélt að væru frekar meðvitaðir en leyfðu börnum sínum samt að vera með snjallsíma og samskiptaforrit sem eru bönnuð innan 13 ára og þá sögðu foreldrarnir að það væru allir krakkarnir í bekknum með snjallsíma, og að þau vildu ekki að barnið þeirra væri útundan. Þarna þurfa foreldrar að standa saman, að minnsta kosti fram að 13 ára aldri. Og svo má ekki gleyma því að til dæmis á Snapchat getur einhver nálgast barnið þitt á fölskum forsendum, stofnað til samskipta og horfið svo aftur. Þarna hefur foreldrið enga leið til að fara í símann og sjá hvað hefur átt sér stað.“

Þórdís Elva: „Stundum er talað um að klámsíur dugi en slíkt veitir bara takmarkað öryggi. Ég rakst á rosalega flott ummæli netinu sem voru á þessa leið: You can’t childproof the World so you have to worldproof your child. Sem þýðir auðvitað að sían á internetið verður að vera innbyggð í barnið. Ef við kennum þeim gagnrýna hugsun hjálpar það þeim að sía í burtu efni sem er ekki ætlað börnum.“

Skiptast á myndum af íslenskum börnum

Þegar þið fóruð að vinna myndina, er margt sem þið hefðuð ekki getað ímyndað ykkur?

Þórdís Elva: „Mjög margt. Eftir einn fyrirlestur minn á höfuðborgarsvæðinu komu til mín tvær 14 ára stelpur sem báðu um að tala við mig eftir á. Þær sögðu mér frá illræmdi vefsíðu sem við stælum í Myndinni af mér, við breyttum titlinum af virðingu við brotaþolana en hann er samt mjög keimlíkur og þeir sem þekkja til geta séð í gegnum þessa afbökun. Þar eru nektarmyndir aðgengilegar af íslenskum börnum niður í 12 ára. Lögreglan segist vera máttvana gagnvart þessari síðu því hún er vistuð í Suður-Ameríku og þeir sem halda henni úti eru með órekjanlega vafra. Þessar fjórtán ára stúlkur sögðu mér að það væri búið að óska eftir nektarmyndum af þeim á þessari ógeðissíðu og þær voru miður sín. Þarna eru sem sagt myndir birtar af íslenskum börnum, sem eru teknar af samskiptamiðlunum til dæmis þar sem viðkomandi er jafnvel bara fullklæddur og spurt hvort einhver eigi nektarmyndir af viðkomandi, börnin eru nafngreind og jafnvel heimilisföng með en þeir sem nota síðuna eru allir nafnlausir.

Stelpurnar verða þannig safngripir, eins og pókemonspjöld. Stelpurnar sögðu mér að 11 manns til viðbótar hefðu lýst áhuga á að fá nektarmyndir af þeim en þær hafa aldrei tekið nektarmyndir af sér og sent. Til að hafa öryggið á oddinum voru þær löngu hættar að fara í leikfimi og sund því þar gæti einhver verið með myndavél. Þær voru samt áhyggjufullar því það er svo auðvelt að fara í fótósjopp og setja höfuðið á þeim á líkama einhverra annarra, tæknin er svo fullkomin, að það myndi ekki sjást að þetta væri fölsuð mynd.“

Viðtalið birtist í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert