Enn lokað um Víkurskarð

Víkurskarð. Mynd úr safni.
Víkurskarð. Mynd úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nú í morgunsárið er að lægja sunnanlands og má búast við þurru og rólegu veðri þar fram á kvöld. Fyrir norðan verður allhvöss eða hvöss austlæg átt í dag með snjókomu og skafrenningi og því líkur á að færð milli landshluta geti spillst. Víkurskarð er enn lokað og eins á Hófaskarði en unnið er að opnun. Jafnframt er akstursbann á veginum um Ólafsfjarðarmúla en þar féll snjóflóð í gær. Þá er Dettifossvegur einnig lokaður.

Í kvöld snýst í norðaustlæga átt og bætir í vind um allt land. Útlit er fyrir norðaustan hvassviðri eða storm á morgun, einna hvassast um landið norðan- og vestan vert. Með vindinum bætir í ofankomuna, einkum frá Tröllaskaga austur á Austfirði. 

„Það má kalla þetta dæmigert vetrarveður á Íslandi en það má nú aldrei vanmeta áður en lagt er af stað í leiðangur. Hiti verður að mestu nærri frostmarki, en á fimmtudag dregur úr vindi og úrkomu auk þess sem það kólnar í veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands. 

Snjóþekja eða krap er á flestum vegum á Suðurlandi, þ.á.m. bæði Hellisheiði og Þrengslum en Mosfellsheiði er ófær eftir nóttina.

Víða er verið að kanna færð og hreinsa vegi. Vitað er að á Vestfjörðum er Kleifarheiði ófær en þungfært er á Mikladal og á Þröskuldum. Á Austurlandi er Fjarðarheiðin þungfær og þar er mjög blint. Ófært er á Vatnsskarði eystra og Öxi.

Veðurspá fyrir næstu daga

Minnkandi austanátt sunnanlands og styttir upp, en allhvasst eða hvasst fyrir norðan, snjókoma með köflum og skafrenningur. Vaxandi norðaustanátt síðdegis og bætir í ofankomuna fyrir norðan, 10-20 m/s í kvöld, en 13-23 á morgun, hvassast um landið norðan- og vestanvert. Snjókoma norðanlands á morgun, slydda austast en þurrt annars staðar. Hiti nálægt frostmarki.

Á miðvikudag:

Norðaustan 15-23 m/s og snjókoma um landið norðanvert, slydda með Austurströndinni, en þurrt að kalla annars staðar. Hiti um og undir frostmarki. 

Á fimmtudag:
Minnkandi norðanátt og víða léttskýjað sunnan- og vestan til, en stöku él á Norður- og Austurlandi. Kólnandi veður. 

Á föstudag:
Suðaustan 8-15 m/s og dálítil snjókoma sunnan- og vestanlands í fyrstu, en síðan slydda eða rigning. Skýjað og þurrt í öðrum landshlutum. Frost 0 til 12 stig, kaldast á Norðausturlandi, en hlánar við Suðurströndina. 

Á laugardag:
Austan- og norðaustanátt með rigningu eða slyddu um landið suðaustan- og austan vert, en úrkomulítið í öðrum landshlutum. Heldur hlýnandi. 

Á sunnudag og mánudag:
Suðvestlæg eða breytileg vindátt, úrkoma í flestum landshlutum og hiti um og undir frostmarki.

Snjóþekja eða krap er á flestum vegum á Suðurlandi, þ.á.m. bæði Hellisheiði og Þrengslum en Mosfellsheiði er ófær eftir nóttina.

Víða er verið að kanna færð og nánari fréttir eiga að berast fyrir klukkan hálf-átta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert