Félagsmenn GKG uggandi yfir tillögum

Kylfingar á golfvelli GKG síðasta sumar.
Kylfingar á golfvelli GKG síðasta sumar. mbl.is/Ófeigur

Stjórn Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar, GKG, ætlar að halda almennan félagsfund í kvöld í ljósi þess að nýverið voru kynntar niðurstöður samkeppni um nýtt aðalskipulag Garðabæjar.

Fram kemur í bréfi GKG til stjórnvalda í Garðabæ að tillögurnar, ef þær koma til framkvæmda, myndu allar hafa veruleg áhrif á athafnasvæði golfklúbbsins.

GKG er með samning um svæðið til ársins 2035 og því er ljóst að ná þarf samkomulagi um breytingar.

„Stjórn GKG er ljóst að tillögurnar úr samkeppninni eru aðeins það, þ.e. tillögur. Engin þeirra kemst í núverandi mynd nærri því að fullnægja þeirri grundvallarforsendu GKG að ekki yrði verr búið að GKG eftir en áður,“ segir í bréfinu, sem var lagt fram á fundi bæjarráðs Garðabæjar í morgun.

„Þá er ljóst að þær og umræða um þær af hálfu forsvarsmanna Garðabæjar hefur sett ugg að fjölda félagsmanna GKG. Óttinn er sennilega mestur við að af okkur verði tekið áður en gengið er frá framangreindu. Þá stöðu gæti stjórn klúbbsins ekki sætt sig við.“

Stjórn GKG vonast í bréfinu, sem var sent bæjarráði 11. janúar, til að fulltrúi bæjarins verði sendur á fundinn í kvöld til að kynna fyrirætlanir sem hafi áhrif svæði golfklúbbsins og að hann greini frá því hvernig tryggt verði að ekki verði verr að klúbbnum búið eftir en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert