Hlutabréfaeign „spennandi tækifæri“

Lárus Welding ræðir við verjanda sinn, Óttar Pálsson.
Lárus Welding ræðir við verjanda sinn, Óttar Pálsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vitnaleiðslur héldu áfram í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Fyrir dóminn komu nokkrir af þeim fjórtán lykilstarfsmönnum bankans sem í maí 2008 fengu lán hjá Glitni til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum. Allir lýstu þeir því fyrir dóminum að þeir hefðu litið á lánið sem hluta af sínum starfskjörum.

„Árin á undan eða áratuginn hafði það tíðkast að allir helstu yfirmenn bankanna fengu að kaupa hlutabréf í bönkunum þar sem lánað var fyrir kaupunum. Ég hefði orðið hissa ef ekkert slíkt hefði komið til,“ sagði Einar Örn Ólafsson, sem starfaði sem forstöðumaður og síðar framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Glitnis.

Friðfinnur Ragnar Sigurðsson, fyrrum forstöðumaður millibankamarkaðar, sagðist hafa litið á hlutabréfaeign í bankanum sem „spennandi tækifæri“ og að í hans huga hefði fyrirkomulagið ekki verið ólíkt hefðbundnum kauprétti.

„Fjárhagsleg áhætta var ekki mikil en það fylgir því ákveðin orðsporðsáhætta að fara með fyrirtæki í þrot, sem stendur ekki undir skuldum sínum,“ sagði Friðfinnur.

Félögin fjórtán í eigu starfsmannana fóru öll í þrot og lán þeirra fengust ekki endurgreidd, alls um 6,8 milljarðar króna.

Ekki stemning fyrir kaupréttarsamningum

Hringja þurfti í eitt vitnið, Ara Daníelsson, til Lúxemborgar og gekk það erfiðlega, sem vakti nokkra kátínu á meðal viðstaddra.

„Hefur ykkur einhverntímann tekist að hringja út?“ spurði einn verjenda, léttur í bragði. Að endingu náðist þó að ákvarða hversu mörg núll ætti að stimpla inn á undan landsnúmerinu í Lúxemborg.

Ari, sem var yfirmaður Glitnis í Lúxemborg, mætti á línuna og lýsti því að hann hefði skilið lánveitingarnar sem útfærslu á kauprétti og að þær hefðu verið kynntar sem nýtt hvatakerfi fyrir framkvæmdastjórn bankans.

Hann sagði jafnframt, eins og áður hefur komið fram í málinu, að ekki hefði verið „stemning“ fyrir kaupréttarsamningunum innan stjórnar bankans, „vegna samninga sem höfðu verið gerðir áður og voru bankanum mjög óhagstæðir.“

„Kaupréttarsamningar höfðu fengið á sig gagnrýni, innan bankans og utan hans og þetta var talin leið sem var heppilegri á þessum tíma,“ sagði Vilhelm Már Þorsteinsson, fyrrum framkvæmdastjóri fjárstýringar hjá Glitni.

Tilgangurinn að umbuna starfsmönnum á erfiðum tímum

Óttar Pálsson, verjandi Lárusar Welding, spurði vitnin út í þá meintu markaðsmisnotkun sem ákæruvaldið telur að hafi falist í lánunum til fjórtánmenninganna, en í ákærunni málsins segir meðal annars að lánin hafi verið veitt og hlutabréf keypt til að gefa til kynna eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum, sem ekki hafi verið til staðar.

Öll vitnin svöruðu á þá leið að í þeirra huga hafi tilgangurinn einfaldlega verið að setja upp hvatakerfi fyrir lykilstarfsmenn, sem eygðu möguleika á að hagnast vel ef gengi hlutabréfanna myndi hækka og bankinn rétta úr kútnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert