Íbúar kjósi um framhaldið

Þórólfur Júlían Dagsson, talsmaður Andstæðinga stóriðju í Helguvík, segir réttast …
Þórólfur Júlían Dagsson, talsmaður Andstæðinga stóriðju í Helguvík, segir réttast að boða til íbúakosninga um framhaldið. mbl.is/Þröstur Njálsson

Samtökin Andstæðingar stóriðju í Helguvík eru að undirbúa íbúafund í Reykjanesbæ vegna stöðu sem upp er komin í tengslum við kísilver United Silicon í Helguvík. Talsmaður samtakanna segir það kröfu margra íbúa að boðað verði til bindandi kosninga um framhaldið þar sem greidd verði atkvæði um framtíð iðnaðarsvæðisins í Helguvík.

Í frétt Morg­un­blaðsins í dag seg­ir hins veg­ar að Ari­on banki ætli að óska eft­ir því við skipta­stjóra þrota­bús­ins að ganga að veðum sín­um í eign­um fyr­ir­tæk­is­ins, koma þeim í sölu­ferli og freista þess að koma kís­il­ver­inu aft­ur í gang. 

Þórólfur Júlían Dagsson, talsmaður Andstæðinga stóriðju í Helguvík, segir með ólíkindum að fara eigi þessa leið, nú þegar sé búið að setja mjög mikla peninga, meðal annars almannafé í gegnum lífeyrissjóðina, í fyrirtækið. „Þeir ættu nú frekar að einbeita sér að því að setja það í forgang að borga upp skuldina við lífeyrissjóðina í staðinn. Væri það ekki siðferðislega rétt?“

Hann segist óttast að lífeyrisþegar í landinu þurfi að taka á sig skerðingar vegna þeirrar fjárfestingar sem sjóðirnir fóru út í. 

Blendnar tilfinningar

Í frétt Morgunblaðsins fyrr í vetur kom fram að Festa líf­eyr­is­sjóður, Frjálsi líf­eyr­is­sjóður­inn og Eft­ir­launa­sjóður Fé­lags ís­lenskra at­vinnuflug­manna hefðu fjár­fest fyr­ir sam­tals 2.166 millj­ón­ir króna í United Silicon. 

Þegar fréttir bárust af því að félagið væri komið í þrot segir Þórólfur blendnar tilfinningar hafa vaknað meðal íbúa í Reykjanesbæ. Útlit væri fyrir að margir myndu missa vinnuna en að sama skapi var fögnuður yfir því að kísilverið væri hætt starfsemi. „Ég leyfi mér að segja að meirihluti bæjarbúa hafi glaðst yfir því að þessu væri í raun loks lokið.“

Að sama skapi væri fólk mjög ósátt við þann snúning Arion banka að ætla að stofna nýtt félag um eignirnar og freista þess að koma verksmiðjunni í gang og í nýjar hendur. „Mér finnst það siðferðisleg skylda mín að benda bankanum á að ef hann ætli að setja meira fé í þetta að hann skuli borga lífeyrissjóðunum það sem fór í þetta til baka.“

Byggir Þórólfur þá skoðun sína á því að Arion banki hafi lagt fjárfestinguna til við lífeyrissjóðina á sínum tíma. „Ef þeir geta sett pening í þetta fyrirtæki og komið því aftur af stað þá ber þeim að mínu mati skylda til að borga þá fjárfestingu fyrst til baka.“

Að mati Þórólfs ætti einfaldlega að rífa kísilverið. „Það er allt of nálægt byggð. Nú þurfum við Íslendingar að fara að hugsa um annað en hrávinnsluiðnað, nóg er nú þegar af slíku hér á landi. Það er ekki framtíð okkar Íslendinga að vera hér með mengandi stóriðju. Framtíðin felst í okkar hugviti. Við ættum að vera að einbeita okkur meira að grænmetisrækt, fiskeldi á landi, forritun og tæknigeiranum og öðru slíku. Það er komið gott betur en nóg af stóriðju sem þessari.

Spurður hvort hann telji að með úrbótum, sem norska ráðgjafafyrirtækið Multiconsult leggur til, verði hægt að starfrækja kísilverið í Helguvík í sátt við íbúana svarar Þórólfur: „Ef reka á kísilver í sátt við samfélagið verður að hafa það fjær byggð en raunin er í þessu tilviki.“ Hann bendir á að kísilverið í Helguvík sé aðeins í rúmlega kílómetra fjarlægð frá leikskóla og skóla. 

United Silicon lýsti sig gjaldþrota í gær. Arion banki hyggst …
United Silicon lýsti sig gjaldþrota í gær. Arion banki hyggst stofna nýtt félag um þær eignir sem koma úr gjaldþrotaskiptunum. mbl.is/RAX

Hann segir það sína tilfinningu að flestir íbúar í Reykjanesbæ vilji einfaldlega losna við kísilverið fyrir fullt og allt. Þeir hafi þurft að þola mengun frá verksmiðjunni mánuðum saman á rekstartímanum og líkamleg óþægindi sem henni fylgdi. 

Bíða niðurstöðu Ríkisendurskoðunar

Andstæðingar stóriðju í Helguvík eru með hópmálsókn vegna kísilversins í undirbúningi. Hann segir að áður en að henni komi verði beðið niðurstöðu úttektar Ríkisendurskoðunar á aðkomu ríkisins að aðdrag­anda og eft­ir­mál­um þess að kís­il­verk­smiðjan tók til starfa. Stefnt er að því að út­tekt­in verði til­bú­in í lok mars. Þórólfur segir samtökin ekki hætt við málsóknina enda eðlilegt að setja fram skaðabótakröfur vegna m.a. þess heilsufarstjóns sem fólk hefur orðið fyrir. 

Besta leiðin að boða til bindandi kosninga

Þá bendir Þórólfur á að Reykjanesbær hafi ekki sagst geta krafist lokunar verksmiðjunnar þar sem hann væri bundinn af samningum við fyrirtækið og myndi eiga skaðabótakröfu yfir höfði sér. Nú sé komin upp ný staða, félagið sé farið í þrot og spurning hver afstaða bæjarstjórnar sé nú til málsins. Samningarnir hljóti að falla úr gildi með gjaldþroti og þurfi að endurnýja, ef vilji bæjarstjórnar standi til þess, ef nýtt félag verði stofnað.

„Besta leiðin til að útkljá þetta mál er að hér í Reykjanesbæ verði haldin bindandi en ekki ráðgefandi íbúakosning um það hvort að íbúar vilji halda Helguvík sem stóriðjusvæði af þessari tegund.“

Þórólfur er flokksbundinn Pírati og mun mögulega fara fram fyrir flokkinn í Reykjanesbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hann segir afstöðu Pírata á Suðurnesjum þá að Helguvík sé ekki staður fyrir mengandi stóriðju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert