Skoðun Jóns Þórs ekkert nýtt

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Golli

„Það er málefnalegt að allur þingheimur hafi allt sem allur þingheimur þarf til að taka upplýsta ákvörðun um það hvort þetta þing treystir þessum ráðherra. Það að grafa undan því í einhverjum pólitískum tilgangi til þess að koma sér undan eigin ábyrgð er algjört hneyksli. Það er algjörlega óboðlegt,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag í umræðum um skipun fimmtán dómara við Landsrétt á síðasta ári.

Tilefnið var umræða í þinginu í morgun um þau ummæli Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, að hann teldi enga þörf á að rannsaka málið frekar af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en rétt væri engu að síður að gera það til þess að halda málinu á lífi með það fyrir augum að setja þrýsting þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að styðja boðaða vantrauststillögu Pírata á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra.

Helgi Hrafn sagðist vilja lýsa hneykslan sinni á orðum Sigríðar um málið, þar sem hún vitnaði í ummæli Jóns Þórs, sem fjallað var um í frétt mbl.is í morgun, og sagði þau benda til þess að rannsókn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar snerist um það að koma henni frá, og sagðist þingmaðurinn telja þau til þess fallin að grafa undan eftirlitshlutverki þingmanna og nefndarinnar. Sagði hann ekkert nýtt að Jón Þór færi fram á afsögn ráðherrans.

„Sjálfur sagði ég það sama í gær, að hæstvirtur ráðherra ætti að víkja. Það er linnulaust verið að kalla eftir því að Píratar og aðrir leggi fram vantrauststillögu. Ástæðan fyrir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd heldur áfram að vinna að málinu, og við hreyfum engum mótbárum við því, er sú að það er sanngjarnt, það er málefnalegt,“ sagði Helgi og krafðist þess að Sigríður bæðist afsökunar á „þessum fáranlegu orðum“ sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert