Vill útrýma menntasnobbi

Aron Leví Beck.
Aron Leví Beck. Ljósmynd/Stefán Pálsson

Aron Leví Beck gefur kost á sér í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Aron Leví leggur meðal annars áherslu á að bæta stöðu ungs fólks í Reykjavíkurborg. Meðal annars að tekið verði á húsnæðisvanda þess. Þá vill hann bæta kjör leikskólastarfsmanna og efla leikskólaþjónustu borgarinnar. Ennfremur vill Aron Leví að íþrótta- og tómstundaiðkun sé öllum aðgengileg og eins vill hann útrýma „menntasnobbi“ þar sem lista- og verknám sé ekki metið jafnt bóklegu námi.

„Það er mikilvægt að hæfileikar ungs fólks í list- og verkgreinum séu metnir jafnt hæfileikum í bóklegum fögum. Útrýma þarf menntasnobbi sem gerir það að verkum að litið sé á verklegt nám sem eingöngu úrræði fyrir ungt fólk sem ekki er eins gott á bókina.“

Aron Leví leggur einnig áherslu á mikilvægi endurnýjunar í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar. „Sjálfbær endurnýjun á flokknum er skynsamleg því ekki hefur það reynst okkur vel að þurfa að skipta um alla áhöfnina í einum hnikk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert