Heimsmet í sparakstri

Heimsmetið í sparakstri stóðst ekki atlögu tveggja Breta sem nýverið óku Honda Jazz-bíl 1.350 kílómetra vegalengd frá syðsta odda Englands, Lands End, til norðurodda skoska meginlandsins, tanga að nafni John O'Groats.

Til akstursins höfðu þeir Paul Clifton, blaðamaður hjá BBC, og rannsóknarmaðurinn Fergal McGrath aðeins tankfylli bensíns, ekki dropa umfram það. Luku þeir ferðalaginu langa á 26 klukkustundum en vegalengdin er ámóta hringveginum íslenska. Á eftir þeim í öðrum bíl óku tveir fulltrúar bresku bíleigendasamtakanna AA til að ganga úr skugga um að metaksturinn færi fram reglum samkvæmt.

Sló gamla metið með stæl

Þegar þeir áttu eftir um hundrað kílómetra skutu mælar bílsins þeim skelk í bringu með því að tilkynna að eldsneytið væri á þrotum. Litli Jazz-bíllinn malaði þó áfram og skilaði sér á leiðarenda.

Bílhraðinn að meðaltali alla leiðina var 60 km/klst. Niðurstaðan var sú að bensínnotkunin var aðeins 2,5 lítrar á hundraðið og nýtt heimsmet í skilvirkni bensínvélar. Gamla metið var 3,4 lítrar á hundraðið.

„Tilgangurinn var að sýna fram á að meðalstórar bensínvélar, með minni útblæstri en dísilvélar, gætu staðið skilvirkari dísilvélum á sporði,“ segir Clifton um tilgang metakstursins.

Sparneytnir frá Honda

Í Honda Jazz-bílnum er 1,3 lítra og fjögurra strokka bensínvél með handskiptingu sem eyðir samkvæmt upplýsingum frá Honda 4,2 lítrum á hundraðið. Tókst Clifton og McGrath að minnka þessa neyslu, miðað við 100 km akstur, um heil 68%, sem hljómar með ólíkindum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hondabílar slá sparakstursmet. Í fyrra bætti Honda Civic Tourer með dísilvél Guinness-met fyrir sparneytni eldsneytis. Fór hann með tæplega 2,4 lítra að meðaltali á hundraðið í 13.420 kílómetra akstri. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert