Aðstæður eins og þær verða bestar

Margir skelltu sér á skíði í dag.
Margir skelltu sér á skíði í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er búinn að vera frábær dagur,“ segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli. Aðstæður til skíðaiðkunar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hafa verið góðar í dag en það snjóaði töluvert í nótt.

Um fjögur þúsund manns hafa komið í Bláfjöll og þúsund í Skálafell. „Það er búið að ganga á með sól, snjókomu og þoku og það hafa því eiginlega verið öll veðurbrigði. Við höfum reyndar sloppið við rok,“ segir Magnús.

Hann segir aðstæður hinar bestu en nýfallinn snjórinn er eins og púður. „Það er nóg af snjó, fullt af nýjum snjó í nótt og þetta er eins og aðstæður verða hvað bestar,“ segir Magnús og bætir við að athyglisvert sé hversu mikil aðsókn sé á byrjendasvæðin:

„Þetta er eins og um páska. Fólk er bara að njóta með börnunum sínum og það er þægileg tilfinning.

Aðsókn í Bláfjöll varð um tíma meiri en svæðið ræður við en umferðarteppa myndaðist á afleggjaranum að skíðasvæðinu. „Starfsmenn okkar leystu úr teppunni,“ segir Magnús.

„Auðvitað er þessi umferðarteppa leiðinleg en heilt yfir þetta gengið mjög vel,“ segir Magnús. Ólíklegt er að opið verði í skíðasvæðunum á morgun en veðurspáin er ekki hagstæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert