Eldaði fyrir Bayern München

Daníel Rittweger segir óneitanlega hafa verið áskorun að elda án …
Daníel Rittweger segir óneitanlega hafa verið áskorun að elda án þess að nota smjör, rjóma eða salt. Þessi innihaldsefni voru hins vegar á bannlista hjá Bayern München. Ljósmynd/Aðsend

Það er ekki hver sem er sem fær að elda ofan í þýska fótboltaliðið Bayern München. Það fékk þó íslensk-þýski kokkurinn Daníel Rittweger að gera eftir að hafa borið sigur úr býtum í matreiðslukeppni. Daníel, sem útskrifaðist í síðustu viku úr kokkanáminu, starfar nú á sínum öðrum Michelin-stjörnu-veitingastað.

Daníel segir í samtali við mbl.is óneitanlega hafa verið gaman að fá að elda fyrir liðið.

„Ég er búinn að vera að taka þátt í matreiðslukeppnum víða um Þýskaland og hefur gengið mjög vel og hef yfirleitt lent í fyrsta eða öðru sæti,“ segir Daníel. Ein verðlaunin voru þó í óvenjulegri kantinum — að fá að elda fyrir fótboltalið Bayern München í tvo daga.

Daníel með markmanninum Manuel Peter Neuer. Leikmennirnir voru ánægðir með …
Daníel með markmanninum Manuel Peter Neuer. Leikmennirnir voru ánægðir með réttina sem hann bauð þeim upp á. Ljósmynd/Aðsend

 Ekki smjör, salt eða rjómi 

„Yfirkokkurinn byrjaði á að útskýra fyrir mér hvað leikmennirnir borðuðu yfirleitt,“ segir Daníel og kveður leikmennina jafnan byrja daginn á því að fá sér múslí til að fá orku. „Síðan fá þeir heitan mat í hádeginu. Kokkurinn sagði mér að í hann mætti ekki nota smjör, rjóma eða salt,“ rifjar hann upp og viðurkennir að það hafi verið svolítið áskorun að elda án þessara þriggja hráefna sem flestir kokkar nota mikið af.

„Annars borða þeir eiginlega allt þess utan,“ bætir hann við og kveðst hafa boðið leikmönnunum upp á japanska miso-súpu, salat með túnfiski, avókadó og sesamolíu og kjúklingakarrí með hrísgrjónum. „Þeir voru bara sáttir við matinn og sögðu þetta vera gott,“ segir Daníel sem fékk mynd af sér með þeim Thomasi Müller og Manuel Neuer til minningar.

Daníel á íslenska móður, myndlistarkonuna Svanhvíti Valgeirsdóttur, og bjó fjölskyldan hér á landi um nokkurra ára skeið. Ég var í skóla hér á landi og útskrifaðist úr Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 2011,“ segir Daníel. „Við fluttum síðan aftur út fyrir fimm eða sex árum og ég fór í skóla í Belgíu, en faðir Daníels, Peter Rittweger, er þýskur diplómat og starfar í Brussel. Daníel leiddist hins vegar námið og ákvað að prufa eitthvað nýtt.

„Ég hef alltaf haft áhuga á matreiðslu og ákvað bara að gera eitthvað sem mér fannst skemmtilegt,“ segir Daníel. Hann hélt því næst til kokkanáms í Hamborg í Þýskalandi og útskrifaðist sem fulllærður kokkur í síðustu viku. Meðfram þriggja ára kokkanámi var hann síðan að vinna á veitingastaðnum Louis T. Jacob, þar sem kokkurinn Thomas Martin státar af tveimur Michelin-stjörnum. 

Daníel var duglegur að taka þátt í matreiðslukeppnum meðfram náminu …
Daníel var duglegur að taka þátt í matreiðslukeppnum meðfram náminu og gekk vel. Hér er hann og liðsfélagar hans með Chefs Culinar Team Cup verðlaunin sem þau hlutu í Düsseldorf. Ljósmynd/Aðsend

 Má ekki vera einn vatnsdropi á diskinum

Nú er hann hins vegar kominn aftur til Belgíu og vinnur á öðrum tveggja stjörnu Michelin-veitingastað, Nuance, þar sem sjónvarpskokkurinn Thierry Theys ræður ríkjum. Daníel kveðst kunna mjög vel við sig á nýja staðnum.

„Þetta er aðeins öðruvísi en það sem ég var að gera í Hamborg. Á Thomas Martin var matseldin í klassískum frönskum anda en þetta er meira nýtt og öðruvísi. Yfirkokkurinn er mjög ungur sjálfur og það eru líka allir mjög ungir sem vinna á þessum stað,“ segir hann og bætir við: „Þetta er spennandi og nýtt. Við erum líka mikið að prófa nýja hluti og notum mikið að japönskum hráefnum í matinn.“

Daníel segir vissulega fylgja því álag að starfa sem kokkur á veitingastað sem er með tvær Michelin-stjörnur. „Þetta er mikil vinna og vinnuvikan er á bilinu 70-80 tímar. Við byrjum yfirleitt klukkan átta eða níu á morgnana og erum stundum að til eitt eða tvö á nóttunni.“

Þá geti það verið stressandi komi gestur á staðinn sem ætlar að borða einn og gerir mikið af því taka myndir af matnum. „Þá veit maður aldrei alveg hvort þetta sé mögulega einhver frá Michelin, því ef svo er þá má ekki vera einn einasti vatnsdropi á diskinum sem ekki á að vera þar.“

Daníel dreymir um að opna sinn eigin veitingastað á Íslandi …
Daníel dreymir um að opna sinn eigin veitingastað á Íslandi í framtíðinni. Ljósmynd/Aðsend

 Margir flottir staðir á Íslandi

Daníel kveðst vel geta hugsað sér að elda á Íslandi í framtíðinni. „Það eru margir flottir veitingastaðir á Íslandi sem hafa verið opnaðir á síðustu árum,“ segir hann og bætir við að mögulega komi hann eitthvað heim á næsta ári. „Ég er búinn að hafa samband við nokkra veitingastaði og svo sjáum við bara til.

Síðan langar mig líka einhvern tímann að opna minn eigin stað á Íslandi, það er bara spurning um hvenær því fyrst þarf maður að safna sér reynslu og skoða heiminn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert