Starfsmaður á velferðarsviði kærður fyrir kynferðisbrot

Maðurinn starfaði sem sérfræðingur á einni undirstofnun velferðarsviðs.
Maðurinn starfaði sem sérfræðingur á einni undirstofnun velferðarsviðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérfræðingur á einni undirstofnun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot gegn fyrrverandi stjúpdóttur sinni, sem er á barnsaldri. Þetta staðfestir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, í samtali við mbl.is. Fyrst var greint var frá málinu í kvöldfréttum RÚV.

Samkvæmt frétt RÚV hafði maðurinn, sem er á sextugsaldri, verið kærður fyrir kynferðisbrot gegn ungum pilti fyrir um þremur árum, en það mál var látið niður falla eftir rannsókn lögreglu. Þá starfaði maðurinn hjá öðru sveitarfélagi og var pilturinn skjólstæðingur hans. Hann hætti störfum hjá sveitarfélaginu á meðan að málið var til rannsóknar hjá lögreglu.

Síðar var hann ráðinn í stöðu hjá stofnun á vegum ríkisins, áður en hann var svo ráðinn til Reykjavíkurborgar.

Regína Ásvaldsdóttir, sviðstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Regína Ásvaldsdóttir, sviðstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Regína segir að maðurinn hafi ekki starfað í beinum tengslum við börn. Þegar maðurinn var kærður í desember var hann færður til í starfi og nú sé starfsmaðurinn kominn í ótímabundið leyfi.

„Hann er búinn að vera í sérverkefnum, en er núna alveg farinn frá þessari viðkomandi stofnun,“ segir Regína. Hún segist aðspurð fyrst hafa heyrt af eldri kærunni á hendur manninum fyrir um tveimur vikum.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá hans yfirmanni, þá kemur þetta ekki fram í ráðningarferlinu,“ segir Regína. Starfmaðurinn mun hafa tjáð nánasta yfirmanni sínum frá eldri kærunni eftir að hann var ráðinn.

Hún segist hafa kallað eftir öllum upplýsingum um málið og ráðningarferli mannsins. Farið verði yfir málið innan velferðarsviðs borgarinnar, en þar starfa um 2.500 manns á yfir eitt hundrað undirstofnunum.

Fréttin hefur verið uppfærð.
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var haft eftir Regínu að maðurinn hefði verið ákærður vegna málsins. Það er ekki rétt.

Lögmaður mannsins hafði samband við mbl.is og benti á það. 
Hið rétta er að maðurinn hefur verið kærður.

Skýrsla var tekin af kæranda í Barnahúsi á milli jóla og nýárs og rannsókn málsins hjá lögreglu er enn á frumstigum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert