Lokuðu skemmtistað

mbl.is/Kristinn Magnússon

Skemmtistað í efri byggðum Reykjavíkur var lokað í nótt þar sem nokkrir gesta staðarins voru undir aldri. Þetta ekki í fyrsta skipti sem lögregla grípur til þessara aðgerða gagnvart umræddum stað, segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en mikill erill var í nótt og fangageymslur nánast fullar.

Lögreglan stöðvaði ökumann um hálfeitt í nótt eftir að hann hafði ekið yfir á rauðu ljósi. Í ljós kom að viðkomandi var ölvaður undir stýri en látinn laus eftir sýnatöku.

Rétt fyrir eitt í nótt hafði lögreglan afskipti af ökumanni vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var með fíkniefni á sér sem og farþegi og þá var eggvopn í bifreiðinni. Báðir voru látnir lausir eftir skýrslu- og sýnatöku.

Lögreglan vistaði ölvaðan ökumann í fangageymslu um fimm í nótt en hann olli umferðaróhappi á Hringbraut.

Á næturvaktinni voru þrír ökumenn handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og einn undir áhrifum fíkniefna af lögreglunni í Hafnarfirði og Garðabæ. Jafnframt hafði lögreglan afskipti af einum vegna vörslu fíkniefna.

Fjórir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna í Breiðholti og Kópavogi í nótt. Einn þeirra hafði valdið umferðaróhappi en hann var einnig með fíkniefni á sér og hótaði lögreglumönnum þegar þeir höfðu afskipti af honum.

Einn af ökumönnunum var með röng skráningarnúmer á bifreiðinni sem hann ók auk þess að vera vopnaður og með fíkniefni á sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert