Siðmennt styður bann við umskurði drengja

Frumvarp liggur nú fyrir Alþingi þar sem lagt er til …
Frumvarp liggur nú fyrir Alþingi þar sem lagt er til að orðalagi varðandi umskurð verði breytt úr „stúlkubarn“ í „barn“. mbl.is/​Hari

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, hvetur Alþingi til þess að samþykkja frumvarp um bann við umskurði drengja.

Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, hef­ur lagt fram drög að frum­varpi um breyt­ingu á al­menn­um hegn­ing­ar­lög­um, nr. 19/​1940, 218. gr. a. þar sem segir: „Hver sem með lík­ams­árás veld­ur tjóni á lík­ama eða heilsu stúlku­barns eða konu með því að fjar­lægja kyn­færi henn­ar að hluta eða öllu leyti skal sæta fang­elsi allt að 6 árum.“ Breyt­ing­in sem lögð er til er að orðinu „stúlku­barn“ verði breytt í „barn“ og nái því til drengja og stúlkna.

Frétt mbl.is: Umskurður brot á réttindum drengja

Í umsögn Siðmenntar um frumvarpið segir að Siðmennt hafi skýra sýn á málið. „Þar sem um er að ræða alvarlegt og óafturkræft inngrip er óásættanlegt að börn undir lögaldri séu umskorin,“ segir í umsögninni. Þá er vísað í lög um bann við umskurði kvenna sem var samþykkt á Alþingi árið 2005.

Félagið er þó þeirrar skoðunar að lögráða einstaklingar eigi að geta óskað eftir umskurði eftir upplýsta skoðun og ákvörðun þar um. „Rétt er að taka fram að í þeim tilfellum sem umskurður er framkvæmdur t.d. af heilsufarsástæðum eða af lögráða einstaklingi skuli hann framkvæmdur af sérfræðingi á heilbrigðissviði,“ segir jafnframt í umsögn Siðmenntar.

Þá er vísað í umsagnir umboðsmanns barna og læknasamtaka víða um heim, sem hafa lagst gegn umskurði drengja. „Þessar raddir undirstrika mikilvægi þess að gæta hagsmuna barna í hvívetna,“ segir í umsögninni.

Umsögn Siðmenntar um frumvarpið í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert