Ekki hægt að sanda húsagötur

Mikil hálka er í húsagötum og á gangstéttum á höfuðborgarsvæðinu.
Mikil hálka er í húsagötum og á gangstéttum á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sökum mikils vatnsrennslis þýðir ekki að bera sand á göturnar enn sem komið er segir rekstrarstjóri vetrarþjónustu gatna í Reykjavík í samtali við mbl.is. Unnið er að því að bera á gangstéttir. Mjög hált er á gangstéttum og í húsagötum á höfuðborgarsvæðinu og er fólk hvatt til þessa að fara varlega.

„Það bara þýðir ekkert að vera að setja í þetta á meðan það er svona mikið rennsli í götunum, það myndi bara renna burt,“ segir Halldór Ólafsson, rekstrarstjóri vetrarþjónustu gatna. Hann segir fylgst með stöðu mála og hafist verði handa við að sanda götur þegar færi gefst.

„Við skoðum þetta aftur þegar við sjáum að rennsli minnkar aðeins. Hvort sem það verður um hádegið eða í fyrramálið,“ segir hann og bætir við að reynslan hafi sýnt að ekki gangi fyrir þau að vera í húsagötum eftir að fólk er komið heim úr vinnu. Notuð séu stór tæki og þá sé of mikið af bílum í götunum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varaði í morgun við því að í mörgum húsgötum og á gangstéttum sé glærasvell og full ástæða til að fara gætilega um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert