Tveir skjálftar 4 að stærð

Jarðskjálftahrinan við Grímsey heldur áfram en í nótt urðu tveir skjálftar 4 að stærð og fundust þeir á Akureyri og Húsavík.

Um eitt í nótt varð skjálfti 3,3 að stærð, klukkan 02:24 var skjálfti 3,7 að stærð og klukkan 02:39 var skjálfti 3,5 að stærð við Grímsey. Stóru skjálftarnir voru með stuttu millibili, sá fyrri klukkan 03:02 og sá síðari tveimur mínútum síðar.

Frá hádegi í gær fram til miðnættis mældust átta skjálftar við Grímsey sem voru yfir 3,2 að stærð.

Klukkan 12:14 mældist skjálfti af stærð 3,4, klukkan 18:11 mældist skjálfti af stærð 3,5. Örfáum sekúntum seinna varð skjálfti af stærð 3,3. Klukkan 18:27 varð svo skjálfti af stærð 3,8 og klukkan 19:49 skjálfti að stærð 3,4. 

Klukkan 19:59 var skjálfti 3,2 að stærð. Klukkan 23:29 varð skjálfti 3,4 að stærð og klukkan 23:30 varð skjálfti 3,2 að stærð. Klukkan 23:30:54 varð skjálfti 3,5 og kl. 23:46 varð svo skjálfti 3,2 að stærð. 

Bjarki Friis, náttúruvárfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að síðustu tvo sólarhringa hafi mælst 37 skjálftar yfir 3 stig norðaustur af Grímsey en alls eru skjálftarnir tæplega 1.500 á því tímabili. 

Bjarki segir að rólegt hafi verið á skjálftavaktinni í gærdag og aðeins einn skjálfti mælst yfir þrjú stig.

Síðan hafi komið mjög öflug hrina frá tæplega hálfsjö sem var nánast stöðug allt kvöldið. Skjálftarnir voru um 400 talsins á dagvaktinni en um miðnætti voru þeir orðnir um 900 talsins. Eftir miðnætti hafa sennilega mælst yfir 400 skjálftar,“ segir Bjarki. Á meðan blaðamaður var að ræða við Bjarka reið skjálfti yfir sem er 3,2 stig klukkan 05:31 en hann er enn óyfirfarinn þegar þetta er skrifað.

Bjarki segir að skjálftarnir sem hafa verið yfir þrjú stig hafi mælst á Akureyri og Húsavík en enginn órói sé sjáanlegur. Mjög þétt er á milli skjálftanna sem eru á afmörkuðu svæðið norðaustur af Grímsey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert